Breyttar úthlutunarreglur LÍN

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 13:36:57 (5800)

[13:36]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Í Morgunblaðinu 31. mars sl. má lesa frétt um að ákveðið hafi verið að útreikningi námslána verði breytt. Nú skuli ekki lengur tekið tillit til barnabótaauka og barnabóta, né heldur fenginna meðlaga, bóka- og ferðakostnaður skuli hækkaður o.s.frv. Hið háa Alþingi samþykkti lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna í maí 1992 og er óþarft að rifja upp harðorð mótmæli stjórnarandstöðunnar við þessum óréttlátu lögum sem þegar hafa hrakið fjölda fólks frá námi og ekki síst vegna þess að stjórnin virðist hafa getað leikið sér með þessi lög eins og henni hefur sýnst. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. menntmrh., sem ég vænti að hafi staðfest þessar nýju úthlutunarreglur: Hvers eiga þeir að gjalda sem hafa mátt lúta þessum óréttlátu reglum á undanförnum árum, þ.e. frá því í maí 1992, og hvað hefur breyst sem hefur orðið til þess að nú er tekið það ráð að reyna að leiðrétta verstu agnúana af þeim reglum sem námsmenn hafa mátt búa við? ( ÓÞÞ: Sveitarstjórnarkosningar.) Sveitarstjórnarkosningar, segir hv. 2. þm. Vestf. Það nægir mér ekki. Afkoma námsmanna byggist á allt öðru en framgangi manna í sveitarstjórnarkosningum. Þannig að spurning mín til hæstv. ráðherra er þessi:
    Stendur til að leiðrétta, til samræmis við hinar nýju reglur, það sem haft hefur verið af námsmönnum síðan lögin voru sett? Ef ekki, hvers vegna?
    Í öðru lagi: Hvað hefur breyst sem hefur valdið því að nú þykir ekki lengur rétt að telja til tekna fengin meðlög, barnabætur og barnabótaauka?
    Það getur varla verið sæmandi að hv. alþingismenn lesi það í dagblöðum bæjarins hvernig einhverri stjórn út í bæ hefur þóknast að leika sér að kjörum námsmanna.