Breyttar úthlutunarreglur LÍN

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 13:39:23 (5801)


[13:39]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur samþykkt nýjar úthlutunarreglur eða nokkrar breytingar á úthlutunarreglunum. Um þessar breytingar tókst samstaða í lánasjóðsstjórninni og er sérstök ástæða til að fagna því. Það hefur í sjálfu sér ekkert sérstakt breyst. Það er komin ákveðin reynsla á lögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna og það er í ljósi þessarar reynslu sem lánasjóðsstjórnin hefur tekið þessa afstöðu, auk þess sem fjárhagur lánasjóðsins leyfir að nokkuð sé slakað til frá því sem ætlað var.
    Sveitarstjórnarkosningar hafa ekkert með þetta að gera. Ekki nokkurn skapaðan hlut. Og af því að hv. þm. sagði að ráðherra hlyti að hafa staðfest þessar úthlutunarreglur þá er það ekki svo. Ég hef ekki fengið þessar samþykktir með formlegum hætti, en mér eru þær hins vegar kunnar. Hvort einhverju verði breytt varðandi kjör þeirra sem tekið hafa lán til þessa. Því get ég ekki svarað á þessari stundu.