Mótmæli Íslendinga við THORP-endurvinnslustöðinni

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 13:53:16 (5810)


[13:53]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Fyrir páskana átti ég orðastað við hæstv. utanrrh. vegna endurvinnslustöðvarinnar THORP. Á þeim tíma var hæstv. umhvrh. á ferðalagi í Bretlandi og vísaði utanrrh. til þess að hann biði eftir hans heimkomu og tillagna frá ráðherranum í þessu mjög alvarlega milliríkjamáli, svo ég noti orðalag sem hæstv. utanrrh. tók sér í munn af þessu tilefni.
    Nú er hæstv. umhvrh. heim kominn. Hann er þriðji íslenski umhvrh. sem fer til Bretlands sérstaklega --- mér er að vísu ekki ljóst hvort um er að ræða opinberar heimsóknir eða hvernig formlega hefur verið staðið að þeim ferðalögum --- sem fer þangað ekki síst með tilliti til þessara mála, endurvinnslu á kjarnorkuúrgangi í Bretlandi. Og ég vil spyrja hæstv. umhvrh. heim kominn: Hvaða undirtektir fékk hann við sinn málflutning að því er varðar endurvinnslu á geislavirkum úrgangi í Sellafield og annars staðar á Bretlandseyjum? Hvaða tillögur gerir hæstv. umhvrh. að för sinni lokinni til ríkisstjórnar Íslands og Alþingis vegna þessa mjög svo alvarlega máls?