Mótmæli Íslendinga við THORP-endurvinnslustöðinni

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 13:59:00 (5813)


[13:59]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Nú er það svo að ég þekki ekki þá uppeldistækni sem er að finna í Alþb. Ég get a.m.k. borið vitni um það að sú uppeldistækni ber ekki ríkulegan ávöxt. Ég tel að ég hafi ekki tök á því að taka umhverfisráðherra Bretlands á kné mér og flengja hann eða skikka hann til með öðrum hætti. Ég hef beitt öllum þeim aðferðum sem mér eru tiltækar. Ef hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur einhver önnur ráð, þá tel ég að það væri fengur að því að fá þær hugmyndir. Ég tel að það væri fengur að því, virðulegi forseti.
    Að öðru leyti vil ég segja það að ég hélt að ég hefði fulltingi hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, einmitt til þess að skrifa mönnum, kollegum mínum úti í heimi, og vara þá við og ég vissi líka þegar ég fór að hitta kollega minn í Englandi að undirtektirnar yrðu neikvæðar. Ég taldi hins vegar að það væri fengur að því að ræða þetta augliti til auglitis við hann og fá hans svör beint frá hans vörum en ekki einhver bréf sem kontóristar í hans ráðuneyti hafa skrifað.