Skipan nefndar til að kanna áhrif laga um LÍN á hagi námsmanna

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 14:04:07 (5816)


[14:04]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hélt að ég væri búinn að svara þessum spurningum hér þegar í þinginu, en ég get farið yfir það enn og aftur.
    Hið rétta í málinu er að það viðtal, í gæsalöppum, sem kom við mig í þessu stúdentablaði --- mér var ekki kunnugt um þegar ég átti þetta símtal við ritstjóra blaðsins að hann væri að eiga við mig eiginlegt blaðaviðtal, en ég hef ekki mótmælt því efnislega sem okkur fór á milli. Það eru staðreyndir í málinu.
    Ég hafði lýst því yfir að ég mundi skipa starfshóp til þess að kanna áhrif hinna nýju lánasjóðslaga, en ég hafði ekki lýst því yfir, sem víða hefur komið fram hjá stúdentum, að þessi hópur ætti að fá það hlutverk að endurskoða lánasjóðslögin. Það stóð aldrei til. Ég hafði hugsað mér að skipa í þennan hóp formann stjórnar lánasjóðsins, formann stúdentaráðs og framkvæmdastjóra lánasjóðsins. Framkvæmdastjóri lánasjóðsins óskaði eftir því að taka ekki sæti í þessari nefnd. Hann taldi það ekki eðlilegt að hann sem framkvæmdastjóri sæti þar og það varð til þess að málið dróst á langinn og hópurinn hefur ekki verið formlega skipaður enn þá. Ég hef ekki hætt við þá ætlun mína að skipa hópinn. Það liggja að sjálfsögðu fyrir ítarlegar upplýsingar um áhrif þessara laga, en þeim ber ekki saman. Þeim ber ekki saman upplýsingum sem lánasjóðurinn hefur tekið saman og upplýsingum sem stúdentar hafa tekið saman. Það var þetta sem ég ætlaði með skipan þessa hóps að fá fram, einfaldar staðreyndir málsins, sem ég trúi ekki öðru en muni nást fram þegar menn fara að tala saman. Ég mun ganga frá þessu fljótlega.