Flutningur Byggðastofnunar

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 14:07:47 (5818)


[14:07]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég hafði hugsað mér að bera fram spurningu til hæstv. forsrh. Nú sé ég að stóllinn snýr öfugt í sæti hans og forsrh. á braut þannig að ég verð að doka við.
    ( Forseti (SalÞ): Það verða gerðar ráðstafanir til að gera hæstv. forsrh. viðvart.)
    Virðulegur forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. forsrh. vegna málefna Byggðastofnunar sem heyra undir ráðuneyti forsrh. Hæstv. forsrh. hefur margsinnis lýst því yfir að honum þætti eðlilegt eðli máls samkvæmt að Byggðastofnun væri flutt út á land og hefur nefnt Akureyri í því sambandi. Ef ég man rétt, þá hefur hæstv. forsrh. sagt að það væri eðlilegt að þingmenn stæðu frammi fyrir því hér á Alþingi hvort þeir væru samþykkir þeirri gjörð. Í nefnd sem hæstv. forsrh. skipaði um flutning ríkisstofnana og starfaði undir forustu Þorvaldar Garðars Kristjánssonar er komist að þeirri niðurstöðu, eins og hér segir, með leyfi forseta: ,,Tillaga. Byggðastofnun verði flutt til Akureyrar.`` Skýrara getur það ekki verið.
    Nú gerðist það í síðustu viku að stjórn Byggðastofnunar ákvað að selja það húsnæði sem hún á við Rauðarárstíg og kaupa annað í Reykjavík og þetta hlýtur að hafa verið gert með vitund og vilja hæstv. forsrh. sem er sá ráðherra sem fer með málefni Byggðastofnunar. Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta sé tákn þess að hæstv. forsrh. hafi tekið sinnaskiptum í þessu máli og hafi tekið þá ákvörðun að aðalstöðvar Byggðastofnunar skuli vera áfram í Reykjavík.