Flutningur Byggðastofnunar

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 14:10:51 (5819)


[14:10]

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Það er alveg hárrétt að þessi ákvörðun um sölu og kaup á húsnæði Byggðastofnunar var tekin með fullri vitund minni og í samráði við mig að sjálfsögðu. Ég tel það mikilvægt fyrir Byggðastofnun að hafa getað þarna losað um mikla fjármuni sem áður voru bundnir í fasteign þeirrar stofnunar. En það var einmitt sú breyting sem orðið hefur á högum Byggðastofnunar sem gerði þennan tilflutning færan og gerði stofnuninni kleift að losa svo mikla peninga eins og þarna er um að ræða fyrir stofnunina, því að stofnunin hefur í raun flutt verulegan hluta af sjálfri sér út á land. Ég tel það afskaplega mikilvægt hvernig á því máli hefur verið haldið af hálfu stjórnar Byggðastofnunar og af hálfu stofnunarinnar sjálfrar.
    Ríkisstjórnin samþykkti í upphafi síns ferils að Byggðastofnun yrði flutt til Akureyrar. Það er hins vegar mál sem þingið þarf að ákvarða. Ríkisstjórnin hefur ekki tekið afstöðu í þá veru að breyta fyrri ákvörðun, en auðvitað hlýtur sú framganga Byggðastofnunar sem ég var að vitna til og þakka að hafa áhrif á hug manna, bæði minn og annarra þingmanna varðandi flutning á Byggðastofnun til Akureyrar.