Flutningur Byggðastofnunar

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 14:12:19 (5820)




[14:12]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það verður að segjast alveg eins og er að það er allt annar tónn í málflutningi hæstv. ráðherra um þetta mál heldur en hefur verið þegar hann hefur tekið til máls um það hér á Alþingi fyrr á þessu kjörtímabili. Nú lætur hæstv. ráðherra að því liggja að það sé nóg að gert, það sé búið að flytja nokkra skrifstofumenn til innan stofnunarinnar til útibúa og þar með sé búið að fullnægja því markmiði ríkisstjórnarinnar sem sett var í upphafi.
    Ég vil einnig, virðulegi forseti, benda á það að hæstv. ráðherra skírskotaði til þess að það væri einmitt vegna samdráttar í starfsemi hér í Reykjavík sem þessi eignatilfærsla væri möguleg núna. En þá vil ég benda á þá einföldu staðreynd að Byggðastofnun er með þessum breytingum að flytja í stærra húsnæði. (Forseti hringir.) Það er um að ræða í fermetrum meira húsnæði sem Byggðastofnun fær til umráða hér í Reykjavík núna heldur en hún hefur í dag við Rauðarárstíg. En ég vil ítreka spurningu mína, hvort hæstv. forsrh. sé horfinn frá því að flytja aðalstöðvarnar til Akureyrar.