Framleiðsla og sala á búvörum

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 14:31:16 (5826)

[14:31]
     Egill Jónsson :

    Virðulegi forseti. Allt frá því að fyrstu drög að brtt. við þetta frv. lágu fyrir hefur orðalag á heimildum landbrh. til álagningar verðjöfnunargjalds á innflutt landbúnaðarhráefni verið óskilyrt hvað uppruna þeirra varðar. Þetta er staðfest í gögnum málsins og í prentuðum skýringum sem fylgdu tillögunum. Í nefndinni komu aldrei fram efasemdir um að orðalagið ,,landbúnaðarhráefni`` ætti ekki jafnt við um erlend og innlend efni. Þessu til enn frekari áréttingar kemur greinilega fram það álit sérfræðinga í fskj. I og II með frhnál. 1. minni hluta að texti brtt. sé skýr.
    Að því er varðar b-lið þessara tillagna er vert að benda sérstaklega á GATT-tilboð ríkisstjórnarinnar. Það var lagt fram í nóvember sl. og liggur nú fyrir í endanlegri mynd en frestur til athugasemda frá öðrum þjóðum rann út 25. mars sl. (Forseti hringir.) Þar er ákveðinn sá vörurammi sem Íslendingum verður heimilt að beita verðjöfnun á grundvelli breytilegra tolla og íslenskra heilbrigðiskröfur ná til. Þær af þessum vörum sem skráðar eru í viðaukum I og II í frv. eins og það er nú orðið falla undir valdsvið landbrh. Þær heimildir standa óbreyttar þótt nýtt GATT-samkomulag verði gert. Tillaga þessi er því óþörf og raunar til þess eins fallin að vekja tortryggni. Þess vegna segi ég nei.