Framleiðsla og sala á búvörum

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 14:48:31 (5833)

[14:48]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það hafa ýmis tíðindi orðið í meðferð þessa máls hér á Alþingi. Nú síðast hefur t.d. hv. formaður landbn. afneitað eigin skilningi á frv. frekar tvisvar en einu sinni í atkvæðagreiðslum og hlýtur það að teljast nokkuð óvenjulegt. Það má segja að komið sé að ákveðnum kaflaskilum í landbúnaðarfarsa ríkisstjórnarinnar. Málinu er þó ekki lokið nema síður sé. Það er þvert á móti galopið. Áframhaldandi óvissa mun ríkja, deilur og bullandi málaferli verða væntanlega afleiðingin af lögfestingu óljósrar niðurstöðu hér á þingi. Það má segja að stjórnarflokkarnir hafi orðið sammála um að halda því áfram að vera ósammála í landbúnaðarmálum. Vegna þessa og hvernig málið er vaxið hljótum við stjórnarandstæðingar að vísa allri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni og það mun ég gera og sitja hjá við afgreiðslu málsins.