Framleiðsla og sala á búvörum

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 14:50:16 (5834)

          [14:50]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Fyrst er að greina frá þeim óstaðfestu fréttum sem mér hafa borist að það sé áhugi manna fyrir að flytja inn kengúrukjöt. Nú erum við að afgreiða hér frv. og hvernig verður með það farið þar sem þær eru ekki framleiddar hér á landi?
    Það liggur ljóst fyrir að landbn. var komin með tillögur í frumvarpsformi sem fólu í sér viðunandi lausn á búvörudeilunni. Þetta hafði tekist með góðri aðstoð ágætra lögfræðinga og góðri samvinnu í nefndinni. Hefði nefndin fengið að vinna áfram í friði þá lægi hér á borðum frv. sem væri samstöðumál

meginþorra þingmanna. En því miður, friðurinn í nefndinni breyttist í ófrið. Og ástæðan? Utanrrn. vildi hafa taumhald á nefndinni og hinu háa ráðuneyti tókst sitt ætlunarverk gegn vilja meiri hluta nefndarinnar. Málefni landbn. ættu þó ekki að vera á forræði hæstv. utanrrh.
    Annmarki þessa frv. eins og það liggur nú fyrir er að það gengur ekki nógu langt vegna undanlátssemi við krata. Mér er þó ljóst að frv. þarf að ganga fram. Lengra virðist ekki hægt að komast og fyrir málinu er þingmeirihluti. En atkvæði mitt er mótmæli, mótmæli við vinnubrögðum hæstv. utanrrh. í þessu máli og þeirri undanlátssemi sem honum er stöðugt sýnd. Ég segi nei.