Framleiðsla og sala á búvörum

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 14:55:41 (5837)


[14:55]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um mál sem búið er að velkjast fyrir ríkisstjórn og Alþingi í tæpt ár. Það sem er e.t.v. eftirtektarverðast þegar kemur að atkvæðagreiðslu er að engin lausn hefur fundist. Vilji Alþingis hefur í tæpt ár legið fyrir. Það hefur ekki strandað á því að það væri ekki hægt að finna hann. Það sem hins vegar hefur gerst er að ráðherrar ríkisstjórnarinnar og forustumenn stjórnarmeirihlutans á Alþingi hafa verið ófærir um að ná samkomulagi um málið sem hægt væri að leggja hér fyrir Alþingi og um gæti náðst breið samstaða. Það vekur upp þá spurningu: Hversu langt hlé verður á þessu máli frá og með þessari atkvæðagreiðslu í dag? Það er mín skoðun að ekki muni líða á löngu þar til einstakir ráðherrar og stjórnarflokkarnir verða komnir í hár saman út af þessu máli. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að um þetta mál verður að vera löggjöf og sit því hjá við þessa atkvæðagreiðslu.