Húsaleigulög

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 15:19:16 (5844)


[15:19]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég kem aðeins í stólinn til að undirstrika ánægju mína með það að þetta frv. skuli vera komið fram. Ég held að nál. og þær breytingar og skýringar sem þar eru séu yfirleitt til bóta. Eitt algengasta sambúðarform um langan aldur á Íslandi hefur verið það sambúðarform að mæðgin eða feðgin hafa búið saman. Það hefði kannski alveg eins mátt nefna það og önnur dæmi sem nefnd eru í nál. viðvíkjandi 3. gr.
    Ég tel að þetta orðalag sé aðeins til skýringar en ekki sem dæmi og eigi ekki að vera tæmandi upptalning hjá nefndinni og því tel ég ekki mjög hættulegt þó þetta standi svona. En ég tel að það sé til stórra bóta að þessi ákvæði skuli koma núna inn í lögin.
    Mér finnst augljóst mál eins og efnahags- og atvinnuástandið er á Íslandi í dag að fleiri og fleiri munu þurfa að leigja, geta ekki komið sér upp þaki yfir höfuðið og þar af leiðandi fer þörfin á að skýr og góð húsaleigulög séu til vaxandi og að réttur allra aðila sé vel tryggður, ekki bara þeirra sem leigja heldur líka húseigendanna. Þeir sem á næstu árum og kannski áratugum munu þurfa að leigja verður trúlega oft fólk sem á undir högg að sækja í tilverunni og því er mjög mikilvægt að þetta frv. sé vel og réttlátlega út garði gert og ég held að svo sé.