Húsaleigulög

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 15:21:27 (5845)


[15:21]
     Frsm. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær undirtektir sem þetta mál fær í virðulegum þingsal Alþingis. En ég vil líka nota þetta tækifæri til að þakka nefndarmönnum í félmn. fyrir samvinnu í bæði þessu máli og lögum um fjöleignarhús sem sett voru laust fyrir páska. Þetta eru tveir mjög mikilvægir lagabálkar varðandi búsetu fólks og það hefur verið mjög góð samvinna nefndarinnar við að vinna þetta mál og komast að sameiginlegri niðurstöðu.
    Hér komu ákveðnar athugasemdir fram fyrst og fremst hjá hv. 15. þm. Reykv. en 18 þm. Reykv. kom jafnframt inn á það sama. Ég vil fyrst svara örlítið varðandi það sem spurt var um að félmrh. veiti leigumiðlunum starfsleyfi. Það kom fram í athugasemd t.d. frá Húsnæðisstofnun að það væri miklu eðlilegra að þetta mál væri sótt undir tiltekið yfirvald í byggðarlaginu, t.d. sveitarstjórn eða lögreglustjóra, rétt eins og um ýmsan atvinnurekstur á staðnum væri að ræða. Nefndin skoðaði þetta og kallaði til fólk og fór yfir þessi mál og íhugaði hvort rétt væri að flytja brtt. og koma til móts við þessi sjónarmið. Samkvæmt gildandi lögum er það lögreglustjóri sem getur veitt löggildingu til leigumiðlunar. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að það væri eðlilegt að félmrh. veitti slíkt leyfi þar sem um starfsleyfi er að ræða. Það má benda á að það er ráðuneytið sem t.d. kemur til með að ákveða frekari hæfisskilyrði sem þarf að uppfylla til að geta fengið leyfi til að reka leigumiðlun, sbr. 74. gr., og það verður ráðuneytið sem kemur til með að hafa yfirstjórn þessara mála og eftirlit með að reglur þar um séu uppfylltar.
    Það kom líka fram við yfirferð nefndarinnar á þessu máli að reynslan hefur sýnt að það er þörf á heimildum til að fylgjast með slíkri starfsemi. Ég bendi í því sambandi á ákvæði í 80. gr. þar sem segir að leigumiðlara sé skylt að veita félmrn. þær upplýsingar um starfsemi leigumiðlunarinnar sem óskað er

eftir hverju sinni. Og einnig 81. gr. þar sem ráðherra er veitt heimild til starfsleyfissviptingar ef leigumiðlari gerist sekur í starfi sínu um vanrækslu eða brot gegn ákvæðum frv. eða missir eitthvert þeirra skilyrða sem sett eru fyrir leyfisveitingu. Í núgildandi löggjöf hafa komið fram annmarkar á að þessum málum sé fylgt eftir eins og við í nefndinni hefðum óskað og því var það niðurstaða okkar að standa að þessu á þann hátt sem gert er.
    Varðandi hina athugasemdina um 3. gr. þá hljóðar 3. gr. svo: ,,Ákvæði í lögum þessum um hjón eða maka eiga einnig við um sambúðarfólk, en með sambúðarfólki er átt við karl og konu sem búa saman og eru bæði ógift, ef þau hafa átt saman barn, konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í eitt ár.`` Nefndin vildi skilgreina þetta ákvæði vítt, eins og fyrirspyrjandi kom inn á og láta það gilda yfir fast sambúðarform óháð slíkri skilgreiningu sem þarna kemur fram og var eiginlega búin að taka ákvörðun um orðalag þar að lútandi. Hins vegar kom það fram í vinnslu brtt. að í lögum er hverju sinni sem getið er um sambúðarfólk sett inn slík skilgreining. Það hefði þá þurft að fara að leita eftir því við hvaða form er átt þarna. Eftir þá yfirferð var því ákveðið að 3. gr. skyldi standa með þeirri breytingu sem nefndin gerir tillögu um að við greinina bætist: eða annað sambúðarform tveggja einstaklinga ef sambúðin hefur varað samfleytt í eitt ár. Mér er það ljúft og skylt að upplýsa að nefndin er þarna að tala um systur, bræður, mæðgin, feðgin, vini o.s.frv. sem búa saman í þetta ár og hljóta þar með sömu réttindi samkvæmt lögunum og aðrir.
    Hitt er annað mál að alveg eins og hv. 18. þm. Reykv. nefndi þá var í nál. fyrst og fremst verið að geta um hvað við gæti átt en ekki meiningin með nál. að þrengja þetta ákvæði.