Húsaleigulög

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 15:48:57 (5849)


[15:48]
     Frsm. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst beina orðum mínum til hv. 18. þm. Reykv. út af spurningu þingmannsins varðandi sambúðarformið.
    3. gr. er um að ákvæði í lögum þessum um hjón eða maka eiga einnig við um sambúðarfólk. Í framhaldi af því ræddum við um hvað átt væri við og að hverju viljum við að lögin beinist varðandi sambúðarfólk. Við vorum því að reyna að gæta réttar þeirra sem eru í sambúð án þess að falla undir þá hefðbundnu skilgreiningu sem þarna var að finna. Ég verð að viðurkenna það að við ræddum það ekki hvort með þessu væru lagðar einhverjar hömlur á það ef fleiri en tveir byggju saman. Auðvitað búa oft fleiri en tveir í íbúð, það eru þá mjög gjarnan börn eða einhverjir sem fylgja með. Það má alveg eins hugsa sér ef þessu hefði ekki verið breytt að hjón eða sambúðarfólk búi saman svo og systkini annars. Ég get ekki séð að þetta rýri rétt þeirra sem á annað borð búa saman, sé þarna um sambúðaraðila að ræða, því mér finnst að það sé verið að gæta hagsmuna a.m.k. tveggja. Að öðru leyti get ég ekki svarað þessu betur vegna þess að nákvæmlega um þetta atriði fjölluðum við ekki en vorum að færa út réttindin samkvæmt 3. gr.
    Aðrar spurningar sem til mín var beint af hv. 4. þm. Norðurl. e. eru kannski meira vangaveltur um almenn atriði. Ég get tekið undir óskir hans um að við munum sjá til þess á komandi árum að nægilegt húsnæði verði fyrir hendi á viðráðanlegum kjörum og við verðum vissulega þess mjög meðvituð öllsömul að það skiptir miklu máli að leiguhúsnæði sé fyrir hendi.
    Varðandi skoðun á því hvort húsaleigulög eða frv. um húsaleigulög hafi verið skoðað með tengingu við frv. um húsaleigubætur, þá hefur það ekki verið gert, þ.e. ekki af okkur í nefndinni og ég svara fyrir störf nefndarinnar. Frv. um húsaleigubætur er rétt fram komið, á síðasta degi fyrir páska, en þá vorum við búin að ljúka umfjöllun okkar um húsaleigulögin. Mér finnst það alveg ljóst að þessi húsaleigulög fjalla um réttindi leigjenda gagnvart leigusala. Þau fjalla um réttindin varðandi húsnæðið, varðandi búsetuna, það sem má gera í íbúð, hvað manni ber, hver réttur manns er og hver réttur leigusalans er. Mér finnst að í þessu frv. hafi þeim málum öllum verið vel fyrir komið og þessi réttur sé vel skilgreindur.
    Varðandi húsaleigubæturnar þá er t.d. í 9. gr. eins og hv. þm. nefndi talað um leigusamninga sem eru gerðir til að fá húsaleigubætur. Ég á afskaplega erfitt með að sjá það, ég hef eins og ég hef sagt ekki borið þessi frumvörp saman með því tilliti sem hann óskar, að samþykkt húsaleigulaganna út af fyrir sig hafi einhver áhrif á frv. um húsaleigubætur nema ef ske kynni að við mundum gera einhverjar lagfæringar þar af því að okkur finnst eitthvað óþarfi sem þar stendur með tilliti til þeirrar réttarstöðu sem er þegar fengin með húsaleigulögunum. Ég verð að segja að engin leið er að fjalla um frv. sem ekki hefur verið mælt fyrir, hvort lögin þegar þar að kemur muni gera kröfu um að samningur verði þinglýstur eftir að fyrir liggja lög sem svo vel er farið yfir með tilliti til húsaleigusamninganna. Það er mál sem kemur bara til skoðunar af því að þingmaðurinn nefndi það. Skilgreining íbúðarhúsnæðis sömuleiðis. Þetta er umfjöllun sem sett er fram um það við hvaða aðstæður og hvað þurfi að vera fyrir hendi til þess að fá húsaleigubætur. Ég á mjög erfitt með að sjá það og þar er ég náttúrlega að tala bara um mín eigin viðbrögð að réttur tapist gagnvart húsaleigubótum sé réttur leigjandans fyrir hendi samkvæmt húsaleigulögum, sé íbúð þess eðlis í raun og veru samkvæmt skilgreiningum um íbúðarhúsnæði og réttindum og skyldum varðandi húsaleigulögum hlýtur það að hafa mikil áhrif á réttindin varðandi húsaleigubæturnar. En ég verð að segja það að ég hef að sjálfsögðu ekki skoðað þetta saman en mér finnst að með tilliti til þess að í öðru tilfellinu er verið að kveða á um réttindi leigjenda gagnvart leigusala og útlistun á húsnæðinu og teknar fyrir ýmsar meginreglur varðandi leiguhúsnæði að þá sé það fyrst og fremst og allt annars eðlis í sjálfu sér frv. um húsaleigubætur þar sem það fjallar um rétt leigjenda til að fá húsaleigubætur og grundvöllurinn fyrir því máli er byggður kannski á öðrum sjónarmiðum. En réttindalega og skilgreining húsnæðis og annað finnst mér hljóta að verða mjög veigamikið í húsaleigulögum.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta mál sem ekki hefur verið mælt fyrir en má vera að félmrh. vilji bæta við þetta hjá mér.