Húsaleigulög

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 15:55:55 (5851)


[15:55]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það hentar mér alveg prýðilega, ég þarf ekki langan tíma til að segja í viðbót það sem ég vil um þetta. Ég þakka hv. formanni félmn. fyrir að staðfesta það sem mig grunaði reyndar að þessi frumvörp hefðu ekki verið borin saman eða skoðuð af nefndinni og ég er alls ekki að álasa einum eða neinum í því efni vegna þess að það liggur auðvitað í hlutarins eðli þar sem húsaleigubótafrumvarpið er nýframkomið. Það stendur hins vegar eftir að fá það upplýst og ég beið með að biðja um orðið þangað til sýnt þótti að mínu mati að hæstv. félmrh. hafði ekkert við okkur að segja um þetta hvort eitthvað var unnið beinlínis af því tagi í undirbúningi málanna af hálfu ráðuneytisins. Ég held ég hafi þegar sýnt fram á með tilvitnunum hér í lagagreinar að það er full þörf á því að fara rækilega yfir og samræma ákvæði þessara laga, það leiðir af sjálfu. Það er svo alveg óskylt mál og tæknilegt atriði hvort menn gera það með því að afgreiða húsaleigulögin óbreytt og taka svo mið af þeim og lagfæra eftir atvikum ákvæði laganna um húsaleigubætur. Ég er út af fyrir sig alveg sammála hv. formanni félmn. að húsaleigulögin eru grundvallarlögin. Þau eru undirstaðan sem taka á réttindum leigjanda og leigusala í þeirra samskiptum. Það hlýtur að vera eðlilegra að ráðstöfun af því tagi, og löngu tímabær að vísu, að taka upp húsaleigubætur, byggist á þeirri grundvallarlöggjöf sem væntanlega og vonandi stenst fremur tímans tönn og þarfnast síður endurskoðunar en slíkar ráðstafanir. Að því leyti er ég auðvitað alveg sammála en hitt er alveg ljóst að a.m.k. hvað varðar leigusamningagerðina þá er húsaleigulöggjöfin úrslitaatriði varðandi réttindi manna til húsaleigubóta. Ég nefndi t.d. þetta með tímabundna leigusamninga eða ótímabundna, það má ekki vera neinn vafi á því að það skerði ekki eða útiloki ekki rétt manna til húsaleigubóta að þeir séu með ótímabundinn leigusamning. Það má gera m.a. með því að taka bara fram í húsaleigubótalögunum að ótímabundinn leigusamningur á íbúðarhúsnæði skuli teljast til sex mánaða eða lengri tíma og þar með falla undir bótaákvæðin þar sem húsaleigulögin kveða á um sex mánaða uppsagnarfrest í slíkum tilvikum. Það getur vel verið að lögfræðingar, a.m.k. einhver hluti Hæstaréttar ef svo færi, kæmust að þeirri niðurstöðu að þetta væri svona en ekki hinsegin en það væri að mínu mati óviturlegt að láta einhverja óvissu liggja í loftinu um slík efni og langbest að klára það frá strax. Hvort sem menn gera það með því að breyta eftir því sem þörf krefur ákvæðunum í húsaleigubótafrv. sem ég er reyndar ekki viss um að sé nóg í öllum tilvikum. Ef menn t.d. vilja ganga þannig frá ákvæðunum um leigusamninga að þeir séu fullnægjandi plagg og þarfnist ekki þinglýsingar til að mynda rétt til húsaleigubóta, þá getur verið að menn vilji gera ákvæðin um það betur úr garði. Ég endurtek það sem ég sagði að í fljótu bragði virðist það fáránleg ráðstöfun að setja ítarleg ákvæði um leigusamninga á íbúðarhúsnæði og lögfesta þau en gera svo jafnframt að skilyrði í húsaleigubótalagafrv. að slíkum samningum sé í hverju einasta tilviki þinglýst, jafnvel þó að þeir séu til skamms tíma til þess að menn geti fengið húsaleigubætur.
    Ég segi svo aftur og endurtek það að ég er sammála formanni félmn. um að húsaleigulögin séu grundvallarlöggjöfin og að því leyti til er eðlilegt að setja þau á undan, ef svo má að orði komast, en æskilegast væri að mínu mati að þessi mál yrðu samferða. Ég sé í sjálfu sér ekkert í aðstæðum á þinginu sem kemur í veg fyrir að svo verði og ég hefði gjarnan viljað heyra eitthvað frá hæstv. félmrh. um þetta áður en við ljúkum þessari umræðu.