Húsaleigulög

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 16:02:19 (5853)


[16:02]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svörin og ég tek það svo að hún sé sátt við það og telji eðlilegt t.d. að það verði dokað eitthvað við með 3. umr. þessa máls á meðan félmn. fer fyrstu umferð á húsaleigubótafrv. og þá er í raun og veru komið með alveg fullnægjandi hætti til móts við mínar óskir og ég þakka fyrir það. Mér þótti hins vegar athyglisvert orðalag hæstv. félmrh. að útfærsla frumvarpsákvæðanna um ótímabundinn leigusamning ætti að nægja til að slíkir samningar mynduðu stofn til húsaleigubóta. Ég get verið sammála hæstv. ráðherra, mér fyndist sjálfum að það ætti að nægja að samningarnir þó ótímabundnir væru séu með sex mánaða uppsagnarfresti en orðalag húsaleigubótafrv. er hins vegar mjög ótvírætt að þeir skuli vera til sex mánaða eða lengri tíma. Mér finnst hins vegar ekki nóg þó við hæstv. félmrh. séum sammála um að þetta ætti að nægja að ganga bara þannig frá málinu þó okkar skilningur sé auðvitað mikilvægur. Best væri að þetta væri alveg ótvírætt. En þetta hvort tveggja og önnur atriði sem við ræddum hér gefst þá tóm til að skoða og ég þakka fyrir það.