Fríverslunarsamningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Búlgaríu

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 18:14:59 (5859)


[18:14]
     Frsm. utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Aðeins til að skýra þetta þá kom það fram að ósk eins nefndarmanna að þetta mál yrði kannað sérstaklega varðandi þann þátt sem lýtur að landbúnaðarmálum. Af því tilefni kallaði nefndin fyrir sig fulltrúa frá Stéttarsambandi bænda og þeir fóru yfir þetta og við þeirra samlestur og athugun kom þetta í ljós. Þá tók nefndin ákvörðun um að gera þetta með þessum hætti, rannsakaði málið og spurði embættismenn utanrrn. í þaula um málið og fékk að mínum dómi fullnægjandi skýringar.
    Varðandi það sem hv. þm. sagði um það að hvort eitthvað í þessum samningum þremur stangaðist á við nýsamþykkt búvörulög, sem við vorum að afgreiða fyrr í dag, þá get ég fullvissað hv. þm. um að svo er ekki. Þetta var einmitt skoðað sérstaklega einnig af þessum aðilum sem fengu málið til umsagnar og ég þori að fullyrða að svo sé ekki.
    Það kom einnig fram þegar nefndin fjallaði um málið að það var fyrir hennar frumkvæði og hv. nefndarmanns Önnu Ólafsdóttur Björnsson, sem hreyfði því fyrst í nefndinni, að það væri ástæða til að kanna þennan þátt. Síðan var það nefndin sem vakti athygli Stéttarsambandsins á því að þetta mál væri komið fram í þinginu og við ræddum það einmitt í nefndinni hvort það væri þá ekki eðlilegt fyrir Stéttarsambandið að hafa visst frumkvæði ef menn hafa sérstakan áhuga á þessum málum.
    Þessir þrír samningar eru annars að efni til samhljóða a.m.k. tveimur sem þingið hefur þegar veitt heimild til að fullgilda. Þannig að þarna er nú verið að fjalla mikið um sömu málin. Ég sé ekkert athugavert við þessa málsmeðferð formlega hér í þinginu en hins vegar tel ég að þessi málsmeðferð í utanrmn. og umfjöllun um þetta mál þar hafi verið með þeim hætti að slík vinnubrögð sem hér hefur verið lýst muni ekki endurtaka sig.