Fríverslunarsamningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Búlgaríu

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 18:25:08 (5864)


[18:25]
     Páll Pétursson :

    Frú forseti. Mér entist ekki tími í andsvari til að koma frá mér öllu því sem mig langaði til að segja hér og því ætla ég að flytja hér örstutta ræðu.
    Það er rétt sem hér hefur komið fram í umræðunni að Alþingi skortir starfslið, ekki það að það sé ekki ágætt starfslið sem við höfum, en það hefur ýmsu öðru að sinna. En við þyrftum aukið starfslið, sérstaklega vegna Evrópumálanna. Þ.e. við erum til þess knúin, komin í þá stöðu, að þurfa að samþykkja það sem berst frá Brussel og hér verða til umfjöllunar eftir fáa daga upp undir 500 tilskipanir sem þeir hafa ungað út í Brussel og við höfum bara gjörsamlega enga leið aðra en að segja já og amen við vegna þess að við erum búin að láta hluta af löggjafarvaldinu til útlanda þrátt fyrir skýr ákvæði stjórnarskrár. Við göngum að þessu með bundnum höndum en við þurfum ekki að gera það með lokuðum augum. Og það væri nauðsynlegt fyrir Alþingi að hafa starfslið til að pæla í gegnum þetta. Því hreyfi ég þessu máli hér að ég tel, frú forseti, að það sé mjög nauðsynlegt að gera ráð fyrir því í fjárhagsáætlun næsta árs að Alþingi fái svigrúm til þess að ráða starfskrafta til þess að vinna að þessum verkefnum. Jafnframt vil ég nefna og benda á að fyrir allshn. liggur þáltill. frá mér um stofnun lagaráðs Alþingis sem er líka nokkuð skyld þessu efni sem ég tel að sé mjög brýnt að hljóti afgreiðslu á þessu þingi.