Fríverslunarsamningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Búlgaríu

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 18:27:36 (5865)




[18:27]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tek mjög undir það að það er fyrir löngu tímabært og hefur reyndar verið í lögum um langt skeið að við Alþingi skyldi stofna lagastofnun eins og það heitir nú í lögum frá 1948 en jafnmikil ástæða til þess að sinna tillögu hv. 1. þm. Norðurl. v. En það sýnir einungis hversu mikil vinna er nauðsynleg í þessu sambandi að við sem sitjum t.d. í EFTA og EES-nefndinni vildum gjarnan, og það er góður siður, dreifa meðal þingmanna gögnum sem við fáum vegna þessara starfa. En ég segi fyrir mig að ég fer ofurlítið hjá mér að dreifa þessum gögnum því að þau eru öll á enskri tungu. Og það er ekki hægt að krefjast þess að hver einasti hv. þm. sé læs á enska tungu. Það er ekkert sem skyldar menn til slíks. Ég geri ráð fyrir að allmargir hv. þm. séu sæmilega vel læsir á enska tungu en ég efast um að svo sé um alla. Bara það eitt að við höfum t.d. ekki starfskraft til að þýða þessi gögn þegar þau berast er heldur ekki boðlegt. Það eru nú einu sinni engar sérstakar menntunarkröfur gerðar til þess að þingmenn megi kjörnir til Alþingis ( JGS: Þeir verða að vera læsir.) Hér segir hv. 6. þm. Norðurl. e. allhrokafullur að menn verði a.m.k. að vera læsir. Það er raunar ekki rétt, það er engin krafa til þess út af fyrir sig. En alla vega held ég að það sé engin krafa gerð til þess að menn kunni hin ýmsu tungumál. Auðvitað er ekkert boðlegt að dreifa slíkum gögnum á erlendum tungumálum. Við eigum að hafa hér fólk sem getur snarað þessu yfir á íslensku. Þannig að það er ekki eitt heldur allt sem á skortir í þessum efnum.