Málefni aldraðra

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 18:34:39 (5867)


[18:34]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þegar þetta mál kom hér til 1. umr. urðu nokkrar umræður um það. Málið er flutt, eins og fram hefur komið, að frumkvæði borgarstjórnar Reykjavíkur sem hefur samþykkt fyrir alllöngu að setja á laggirnar sérstakt öldrunarmálaráð sem hefur það hlutverk að fara með yfirstjórn öldrunarmála í Reykjavík eins og það er orðað í samþykktum borgarinnar.
    Hér er um að ræða talsverða breytingu frá því sem verið hefur, sérstaklega þá breytingu að þetta öldrunarmálaráð er ekki lengur undirnefnd félagsmálaráðs eins og gert er ráð fyrir í lögunum um málefni aldraðra, heldur er gert ráð fyrir því að öldrunarmálaráðið heyri beint undir borgarráð og borgarstjórn og hafi þannig svipaða stöðu og félagsmálaráð og aðrar þær stofnanir sem heyra beint undir borgarráð og borgarstjórn.
    Út af fyrir sig er það mín skoðun að það hafi kannski ekki verið bein þörf á því að fara þá leið sem hér er um að ræða vegna þess að ég held að það sé heppilegra bæði fyrir þá öldruðu og borgina og borgarkerfið að yfirstjórn þessara mála tengist yfirstjórn annarrar félagslegrar þjónustu á vegum borgarinnar og það sé óskynsamlegt að slíta þessa hluti sundur eins og er í raun og veru að nokkru leyti lagt til í frv. eins og það leit út í upphafi.
    Hins vegar er ástæða til þess, hæstv. forseti, að þakka hv. heilbr.- og trn. fyrir það að hún hefur lagað frv. talsvert og gerir hér ráð fyrir því að tengja saman með skýrari hætti en áður félagsþjónustuna og þjónustuna við aldraða, m.a. með þeirri mikilvægu brtt., sem er þriðja brtt. nefndarinnar, að breyta fyrirsögn frv. þannig að það fjallar ekki aðeins um málefni aldraðra heldur felst líka í þessu breyting á lögunum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þetta tel ég að sé mikilvægt.
    En í framhaldi af þessari umræðu, hæstv. forseti, vil ég inna eftir því og minna á að í heilbr.- og trn. liggja fyrir fleiri frumvörp um breytingu á lögum um málefni aldraðra, m.a. frv. sem ég hef flutt sem gerir ráð fyrir tilteknum breytingum að því er varðar íbúðir fyrir aldraða þar sem miðað er við að settar verði um það reglur hvaða íbúðir geti opinberlega kallast íbúðir fyrir aldraða og um þetta mál áttum við nokkra umræðu hér í þinginu fyrir nokkru. Ég vil þess vegna leyfa mér að inna eftir því hjá hv. talsmanni heilbr.- og trn. hvað líður meðferð þess máls og hvort það hefur ekki komið til tals að taka það til meðferðar og afgreiðslu um leið og þetta mál, vegna þess að ég tel að í sjálfu sér liggi meira á því en þessu, með fullri virðingu fyrir því máli sem hér er verið að gera tillögu um að verði afgreitt.
    Ég minni á að þegar þetta frv. mitt, um breytingu á lögum um málefni aldraðra, kom hér til meðferðar þá töluðu þingmenn frá flestum flokkum og tóku í raun og veru undir þau sjónarmið sem fram komu í frv. Og ég bendi á að hæstv. fyrrv. heilbr.- og trmrh., Sighvatur Björgvinsson, tók þessum tillögum mjög vel í umræðum um málið á síðasta þingi. Þannig að ég leyfi mér að inna hv. talsmann nefndarinnar eftir því hvað líður meðferð málsins núna í hv. heilbr.- og trn.