Málefni aldraðra

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 18:38:33 (5868)


[18:38]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Eins og fram kom hjá hv. 2. þm. Vesturl., frsm. hv. heilbr.- og trn., þá skrifar fulltrúi Kvennalistans í heilbr.- og trn. undir þetta nefndarálit með fyrirvara. Ég ætlaði út af fyrir sig ekki að gera grein fyrir fyrirvara hennar, en vildi segja að ég hef ákveðna fyrirvara um þetta frv. og það er kannski fyrst og fremst fyrirvari varðandi málsmeðferðina.
    Eins og menn muna kom þetta mál til umræðu hér rétt fyrir jólahlé í desember og tók ég þá þátt í umfjöllun um málið þar sem fulltrúi Kvennalistans í nefndinni var fjarverandi á nokkrum fundum. Það kom fljótt í ljós þegar farið var að vinna í málinu með þeim hætti sem þó var gert, þ.e. á aukafundum og í hliðarherbergjum, því það var frekar lítill tími til stefnu, að þetta var meingallað frv. Það átti svo sem að vera ljóst bæði stjórnarliðum og stjórnarandstöðu að þarna var um stórgallað frv. að ræða, en það átti samt að þvinga það hér í gegnum þingið. Sem betur fer tókst með harðfylgi að koma í veg fyrir að það yrði gert og sést nú kannski best á því hvað hér er komið í formi brtt. frá nefndinni, hversu nauðsynlegt það var að við skyldum þó geta komið í veg fyrir að þetta væri afgreitt með þeim hætti sem meiningin var.
    Það sem ég geri stærstan fyrirvara við að því er þetta mál varðar er að það skuli vera komið með hérna inn í þingið brtt. við önnur lög, þ.e. lög nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, algerlega nýtt frv. til 2. umr. Það er engin 1. umr. búin að fara fram um þetta mál, heldur kemur núna beint 2. umr. Ég tel þetta alls ekki ganga. Ég tel að þegar um er að ræða brtt. sem þessar þá eigi það að fara fram með venjulegum hætti, þ.e. það verði lagt hér fram frumvarp til 1. umr. Og auðvitað hefði verið eðlilegt þegar ríkisstjórnin kemur með mál eins og þetta að það sé sent til baka og sagt að þetta frv. gangi ekki upp að þá hefði komið fram nýtt frv. og þá tvö lagafrumvörp eins og hefði þurft í þessu, því ég er á móti því að það sé sett í bandorm eins og hefði kannski verið hægt að gera. Þannig að bara það atriði er nægilegt fyrir mig til þess að setja stóran fyrirvara við mál eins og þetta. Ég tel að þetta gangi ekki. Ég tel jafnvel að það geti jaðrað við að það sé brot á stjórnarskránni, um að lagafrv. eigi að fara þrjár umræður í gegnum þingið, þegar það er gert með þessum hætti. Bara það atriði gerir það að verkum að ég set mjög stóran fyrirvara um þetta mál og þá endurtek ég málsmeðferðina. Og ég veit að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur fyrirvara að því er þetta varðar og ég held að hennar stærsti fyrirvari sé einnig að því er varðar málsmeðferðina.
    Út af fyrir sig, og því lýsti ég reyndar yfir fyrir jól líka, er ég ekki á móti efni þessa frv., þ.e. að sveitarstjórnir geti sett á stofn öldrunarráð eða hvað sem það getur heitið, ef það verður ekki til þess að skerða rétt aldraðra á neinn hátt og það er einmitt það sem tekið er fram núna með brtt. nefndarinnar. Ég tel að það sé algert klúður í lagasetningu að bjóða þingmönnum þetta og tel miður að nefndin skyldi ekki bara hafa ákveðið að senda þetta til baka til föðurhúsanna og segja: Gerið svo vel að koma með málið að nýju og þá munum við auðvitað fjalla um það á jákvæðan hátt eins og hér hefur verið gert. Ég tel að það sé auðvitað vel að nefndin skyldi hafa unnið þetta mál upp og bent á hversu vitlaust það var í upphafi og gekk í rauninni alls ekki upp að láta ein lög stangast á önnur eins og hefði gerst ef þetta hefði verið samþykkt óbreytt. Og þetta sýnir kannski hversu hæpið það er að einstök sveitarfélög láti semja lagafrumvörp með þessum hætti og segi svo að Alþingi geti samþykkt þetta og þá eins og einhver nefndi hér og hefur verið margoft nefnt: Hver er það sem fer með lagasetningarvaldið? Stundum má maður ekki hnika orði og er nú orðið ansi slæmt ef maður má ekki hnika orði á frumvörpum sem samin eru á skrifstofu borgarinnar.
    En burt séð frá því þá er ég almennt fylgjandi því að sveitarstjórnir fái að skipa sínum málum sjálfar, ef það skerðir ekki rétt þeirra sem þjónustunnar njóta og þess vegna hef ég talið að það sé allt í lagi að breyta því fyrirkomulagi sem gert er ráð fyrir í lögunum um málefni aldraðra og félagsþjónustu sveitarfélaga. Ég vænti þess að nefndin hafi farið ofan í það hvort það sé einhver hætta á að þjónusta verði skert eða einhverjir aðilar falli þarna á milli laga ef maður getur sagt svo.
    Ég hef ekki lagst í það að bera saman þessa lagabálka sem um er að ræða. Ég býst við að nefndin hafi gert það og það sé þess vegna sem það sé þó komið þetta langt, að koma með þessar brtt. Ég get út af fyrir sig fallist á þær brtt. sem nefndin gerir hér á þessu frv., en ég vil enn og aftur lýsa því yfir að ég tel að Alþingi eigi ekki að láta bjóða sér málsmeðferð eins og hér er. Ég er raunar undrandi á því að heilbr.- og trn. skuli hafa gert það í þessu tilviki og lýsi því aftur yfir að það hefði átt að senda þetta frv. til baka til ráðuneytisins og síðan hefði átt að koma hér stjfrv. með eðlilegum hætti, ef ríkisstjórnin vill standa að því að gera brtt. annars vegar við lög um málefni aldraðra og hins vegar breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.