Málefni aldraðra

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 18:53:27 (5870)


[18:53]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er fátítt að frv. taki þeim breytingum sem þetta frv. hefur tekið. Þó eru dæmi þess. Man ég sérstaklega eftir skýru dæmi frá landbn. sem umsamdi eitt lagafrv., líklega í hittiðfyrra. En ég tek undir það sem kom fram hjá hv. 15. þm. Reykv. að vinnubrögð af þessu tagi eru ekki ásættanleg og við ættum að varast að festa þau í sessi því með því erum við að komast að sumu leyti fram hjá ákvæðum stjórnarskrárinnar um að þingmál skuli fá umfjöllun í þremur umræðum. Það er auðvitað áhyggjuefni þessi vaxandi tilhneiging til þess að setja ný efnisákvæði inn í frumvörp á milli 1. og 2. umr. Í þessu frv.

er kannski ekki hægt að amast mjög við því því það varð að endursemja það. Það var svo illa úr garði gert að ekki var hægt annað en vísa því þá frá, sem auðvitað hefði vel komið til greina, eða gera á því gagngerar breytingar. En því miður hefur það ágerst, t.d. í vetur, að þingnefndir eru beðnar um að taka upp ný efnisatriði í frumvörpum og bæta við, þannig að þau efnisatriði fá aldrei umfjöllun nema í mesta lagi í tveimur umræðum. Þetta er auðvitað mjög til baga.
    Ég tek einnig undir það að frv. eins og það er orðið eftir brtt. heilbr.- og trn. er að verða nokkuð ásættanlegt. Þó eru atriði sem mér finnst umhugsunarverð og velti fyrir mér hvort ástæða er til að skoða betur. Þar vil ég nefna til ákvæði í b-lið 1. brtt. Þar stendur, með leyfi forseta, í síðasta málslið:
    ,,Í starfi sínu skal öldrunarmálaráð hafa samvinnu við félagsmálanefndir eða félagsmálaráð hlutaðeigandi sveitarstjórna`` o.s.frv. Þetta finnst mér ekki góð lagasetning, að orða hlutina óskýrt, því þarna er verið að tala um að menn eigi að hafa samvinnu við annan hvorn af tveimur upp töldum aðilum. Mér finnst að menn eigi að tilgreina nákvæmlega þann aðila sem á að hafa samvinnu við og það eigi þá að hafa samvinnu við félagsmálanefndir eða hafa samvinnu við félagsmálaráð en ekki orða þetta svona.
    Þá finnst mér í þessum sama lið, b-lið, fyrstu tveimur málsliðunum vera ofaukið eða þeir óþarfir, en í fyrsta liðnum er opnuð heimild fyrir sveitarstjórnir á starfssvæði heilsugæslustöðvar til að kjósa sameiginlega fimm eða sjö manna öldrunarmálaráð. Það er ekkert í núgildandi sveitarstjórnarlögum sem bannar þetta. Nefndakerfi sveitarstjórna er þannig að þau ráða því sjálf hvernig þau skipa því, hvert fyrir sig og sameiginlega, nema sérstaklega sé á annan veg fyrir um mælt í lögum. Þess vegna þarf ekkert að opna heimildarákvæði fyrir sveitarstjórnir til að gera þetta eða hitt varðandi nefndaskipan. Þannig að þetta er óþarft, þetta er þegar heimilt í dag. Þessi lagatexti þrengir miklu frekar heimildir sveitarstjórna til þess að laga sig að aðstæðum hverju sinni því að með gagnályktun út frá tillögugreininni verður ekki annað ályktað en heimildin, þar sem hún er ekki tiltekin, sé ekki fyrir hendi, sem er auðvitað ekki eins og sveitarstjórnarlögin eru úr garði gerð.
    Annar málsl. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Öldrunarmálaráð gerir tillögur um verkefni sín til hlutaðeigandi sveitarstjórna.`` Þetta er líka óþarft að mínu mati. Það þarf ekki að setja í lög að nefnd sem sveitarstjórnir koma sér saman um að stofnsetja geri tillögu um verkefni sitt til sveitarstjórna. Þetta er heimilt í dag í lögum. Það má því strika út 1. og 2. málsl. í b-lið 1. brtt. og ég mundi telja það til bóta því það eyðir þá óvissu sem kemur upp ef þetta verður lögfest, eins og þarna er lagt til, því þá kemur upp óvissan um hvort beri að taka skilning sveitarstjórnarlaga eða þennan skilning um heimildir sveitarstjórna til þess að skipuleggja sitt nefndakerfi.
    Ég teldi það eiginlega óþarft af Alþingi af vekja upp efasemdir um það sem fram til þessa hefur verið talinn skýlaus réttur sveitarstjórna til að ráða sínum málum með því að lögfesta þennan lagatexta sem ég hef gert athugasemdir við. Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa uppi athugasemdir um frv.