Málefni aldraðra

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 19:05:46 (5876)


[19:05]
     Margrét Frímannsdóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Finni Ingólfssyni að fyrirvari okkar lýtur fyrst og fremst að þessari málsmeðferð og þessum afgreiðslumáta sem viðhafður var af meiri hluta heilbr.- og trn., þar sem við töldum eðlilegt að þessi síðasti hluti brtt., sem er á þskj. 884, væri fluttur af félmn. eða færi a.m.k. fyrir þingið sem sérstök tillaga. Ég vil að þetta komi fram og taka undir það sem hv. þm. Kristín Einarsdóttir sagði, að þegar þetta frv. var lagt fram, rétt fyrir jólaleyfi hv. þm., þá átti að afgreiða það með hraði, á dagsstund, vegna þess að borgarstjórn Reykjavíkur hafði gert samþykktir þar að lútandi sem ekki stóðust lög, var búin að ákveða að skipa öldrunarmálaráð en sá síðan að það stóðst ekki lög þannig að þá var um að gera að breyta lögum og við fengum skipun um að gera það í hvelli. En heilbr.- og trn. er búin að leggja mikla vinnu í þetta frv. og minni hlutinn hefur ítrekað farið fram á aðra málsmeðferð heldur en hér er viðhöfð.