Málefni aldraðra

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 19:07:20 (5877)


[19:07]
     Ólafur Þ. Þórðarson (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Samkvæmt þeirri stjórnarskrá sem var í gildi 1990 þá er 44. gr. alveg skýr í þessum efnum og, með leyfi hæstv. forseta, hljóðar hún svo:
    ,,Ekkert lagafrumvarp, að fjárlögum og fjáraukalögum undanskildum, má samþykkja fyrr en það hefur verið rætt þrisvar sinnum í hvorri þingdeild.``
    Ég stend í þeirri meiningu að þessu hafi aðeins verið breytt á þann veg að það verði að ræða þau þrisvar og ég held að það hljóti að vera augljóst mál að það mega vera miklir sérfræðingar sem komast að þeirri niðurstöðu ef hægt er að skilja þetta á annan veg. Og 44. gr. í dag er enn þá einfaldari, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ekkert lagafrumvarp má samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi.``
    Mín spurning til hæstv. forseta er því sú: Er ætlunin að standa þannig að þessu að hér verði þá þrjár umræður um málið, sem þýðir að það verði þá bætt við tveimur umræðum miðað við það sem áður hefur verið gert ráð fyrir? Eða hvernig hyggst forseti standa að þessu? Þetta er stjórnarskrárbundið ákvæði. Þetta er ekki eitthvað sem menn geta sagt af því að það voru einu sinni gerð mistök í þinginu og þetta brotið, að þá sé sköpuð hefð fyrir því að það megi brjóta það aftur. Það verður engin hefð til í að brjóta stjórnarskrána. Það liggur alveg ljóst fyrir að hennar styrkleiki er slíkur. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. forseta mjög til þess að skoða það hvort þessi uppsetningarmáti sem hér er notaður er ekki að dómi lögfræðinga, og þá á ég náttúrlega við lögfræðinga sem Alþingi hefði þá helst aðgang að í Háskóla Íslands, hvort þetta er ekki gjörsamlega óásættanleg uppsetning. Ég sé ekki að þetta hafi nokkurn tilgang í stjórnarskránni ef það má afgreiða mál með þessum hætti. Þá er bara hægt að flytja breytingartillögur og það þarf ekki einu sinni að gera það við 2. umr. Það er hægt að gera það við 3. umr., þannig að lagasafnið breytist bara við eina umræðu á Alþingi.