Málefni aldraðra

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 19:10:49 (5879)


[19:10]
     Páll Pétursson (um fundarstjórn) :
    Frú forseti. Það er leiðinlegt að vera að eyða tímanum í að ræða um formsatriði eins og þessi en ég held að það sé samt alveg ómögulegt að komast hjá því. Hér tekur nefnd við frv., væntanlega vegna samræmis, og þá seilist hún inn í frv. sem er á verksviði annarrar nefndar. Heilbr.- og trn. er að bera fram breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem tvímælalaust heyrir til félmn. Hið rétta form á þessu hefði verið það að nefndarmenn í hv. heilbr.- og trn. hefðu borið fram þingmannafrumvarp um þessa breytingu sem þeir töldu nauðsynlegt að gera á öðrum lögum og ég efa ekki að þeir hafi rétt fyrir sér. En þetta er ekki siðlegt form. Það er að vísu fordæmi fyrir því að menn hafi farið ansi frjálslega í bandormum en það hefur þá verið fyrst og fremst varðandi málefni sama ráðuneytis, og einkum man ég eftir um skattalög. Mig varðar ekkert sérstaklega um vilja félmrh. og auðvitað hefðu þingmennirnir fullan rétt til þess að bera fram frv. um þetta efni sem hlyti svo eðlilega þinglega meðferð og væri vísað til hv. félmn.
    Ef þetta gengur si svona þá vil ég nefna hvert það getur leitt. Í dag var afgreitt lagafrv. eða breyting á lögum um framleiðslu og sölu á búvörum. Ég var óánægður með þessa afgreiðslu. Ég á sæti í iðnn. og þar er formaður hv. þm. Svavar Gestsson. Ég gæti með sama hætti (Forseti hringir.) við afgreiðslu máls í iðnn. lagt til breytingu á þessum búvörulögum og komið þeim í þóknanlegra horf svoleiðis að ég vil biðja frú forseta að athuga vandlega sinn gang.