Málefni aldraðra

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 19:16:07 (5883)


[19:16]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. kom fyrst fram í desember sl. eins og komið hefur fram í umræðum. Fyrst og fremst var þetta mál sem snerti sveitarfélagið Reykjavík. Nú er það skoðun mín að það sé mjög eðlilegt að sveitarfélög hafi ákveðið sjálfsforræði til að sjá um sín mál og ekki hvað síst málefni aldraðra. En þegar þetta frv. kom fram í desember þá virkaði það ákaflega sakleysislegt frv. og hæstv. forsrh. lagði

það t.d. til að það þyrfti tæplega að vísa því til nefndar, það væri í raun og veru alveg hægt að sleppa því. A.m.k. væri hægt að sleppa því að fá neinar umsagnir eða kalla eitthvert fólk til umræðu um frv. Það átti helst að halda bara stuttan fund á meðan þingfundur stæði, frv. lagt fram að morgni og afgreiða það að kvöldi.
    Við höfum verið að ræða það hversu miklar breytingar hafa orðið á þessu frv. frá því að það var fyrst lagt fram. Það kom auðvitað í ljós þegar nefndin fór að fjalla um frv. að þetta var alls ekki svo einfalt mál eins og við sjáum hér að það er raunverulega orðið að bandormi. Það er búið að leita umsagna fjölmargra aðila. Eins og kemur fram í nál. þá hafa verið fengnir þrír aðilar á fund hjá nefndinni og það er ekki í fljótu bragði hægt að telja þá alla sem leitað hefur verið umsagnar hjá. Eins og segir í nál. þá kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að það sé nauðsynlegt að gera breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga samhliða þessu frv. og það er það sem við sjáum fyrir okkur í þessum brtt.
    Eins og ég sagði áðan þegar ég ræddi fundarstjórn forseta þá tel ég að hér sé verið að gera grundvallarbreytingar, efnislegar breytingar á frv. og þar af leiðandi fær það ekki við þessar aðstæður rétta málsmeðferð í þinginu. Ég tel að það sé mjög mikið álitamál hvort við þingmenn getum staðið að því að láta slíkt fara í gegn. Við höfum alveg nægilega mikið verið ásökuð um það að hér sé hleypt í gegn frumvörpum sem verða að lögum án þess að þau séu hvorki skoðuð nægilega né jafnvel að þau standist lagatæknilega skoðun.
    Það virðist að með umfjöllun hv. heilbr.- og trn., sem hefur farið yfir þetta frv. samviskusamlega og vel og ber að þakka það, hafi nefndinni með þessum brtt. tekist að afstýra lagatæknilegu slysi.
    En ég held að þetta kenni okkur að það sé full ástæða til þess að spyrna við fótum gegn þessari tilhneigingu að koma málum á hraðferð í gegnum þingið og kannski ekki hvað síst þegar fer að nálgast lok þingsins og menn hafi þá hreinlega ekki tíma til þess að skoða málin nógu vel. Þetta ber að varast.
    Eins og ég sagði áðan þá held ég að nefndin hafi unnið hér mjög gott starf en það er spurning um hvort það er ásættanlegt að hleypa þessu máli áfram með þessum hætti og það er ástæða til að fagna því að það verði skoðað mjög rækilega. Ég hefði helst viljað sjá það að þessari umræðu yrði ekki lokið en verð að sjálfsögðu að sætta mig við úrskurð hæstv. forseta í því að þetta verði skoðað milli 2. og 3. umr.
    Ég tel ástæðu til að ítreka það mjög að hér sé Alþingi og stjórnvöld að fara inn á hættulega braut með því að koma með svona mál og láta þau fara þessa leið í gegnum þingið.