Málefni aldraðra

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 19:21:48 (5884)


[19:21]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og áður hefur komið fram þá var þetta frv. lagt fram rétt fyrir jólaleyfi þingmanna og í athugasemdum við lagafrv. sjálft sem lagt var fram í desember segir, með leyfi forseta:
    ,,Borgarstjórn Reykjavíkur hefur samþykkt að setja á laggirnar sérstakt öldrunarmálaráð sem mun fara með yfirstjórn öldrunarmála í Reykjavík í umboði borgarráðs og borgarstjórnar. Öldrunarmálaráðið mun ekki verða undirnefnd félagsmálaráðs eins og gert er ráð fyrir í lögum um málefni aldraðra heldur heyra beint undir borgarráð og borgarstjórn.``
    Síðar í athugasemdunum segir: ,,Þar sem ákvæði 5. gr. núgildandi laga um málefni aldraðra veita sveitarfélögum ekki það svigrúm sem nauðsynlegt er til að skipa þessum málum svo sem þeim þykir hentugt með hliðsjón af umfangi þessa málaflokks er frumvarp þetta flutt.``
    Reyndar einkenndist umræða heilbr.- og trn. af þessu fyrstu fundina af því að borgarstjórn Reykjavíkur hefði óskað eftir því að lögum um málefni aldraðra yrði breytt í þá veru að hún fengi að skipa sitt sérstaka öldrunarmálaráð sem hún þá þegar hafði samþykkt að gera en sá síðan að það stóðst ekki lög og því varð að breyta lögunum. Mér hefur stundum dottið í hug í gegnum alla þessa umfjöllun sem hefur verið hjá nefndinni og er orðin miklu lengri og meiri en ráð var fyrir gert í upphafi hvort það sama gilti ef lítið sveitarfélag úti á landi sendi nú bréf og segði hv. Alþingi að það hefði ákveðið að skipa sínum málum á þennan eða hinn veginn, hvort við mundum þá, hv. þm., hlaupa upp til handa og fóta og samþykkja lagabreytingu fyrir þetta litla sveitarfélag. Ég get nefnt mitt heimasveitarfélag, Stokkseyrarhrepp, þar sem eru um 550 íbúar, eða hvort vægi þess sveitarfélags, jafnvel ef það væru nokkur lítil sveitarfélög sem gerðu samninga um breytingar, hvort þau fengju sömu meðferð. Ég efast um það.
    Því sem verið er að breyta hér er fyrst og fremst það að öldrunarmálaráðið heyrir beint undir borgarstjórnina, kosið af borgarstjórn, en ekki eins og segir í núgildandi lögum að stjórnir heilsugæslustöðva og félagsmálaráð eða félagsmálanefndir í sveitarfélögum á starfssvæði heilsugæslustöðva skuli tilnefna sérstaka fulltrúa í undirnefnd, öldrunarnefnd.
    Við erum með þessu frv. að samþykkja að í stað öldrunarnefnda megi vera öldrunarmálaráð en það öldrunarmálaráð skal skipað af viðkomandi sveitarstjórn en ekki þeim aðilum sem áður eru nefndir. Hlutverk öldrunarmálaráðs á að vera það sama og hlutverk öldrunarnefnda í dag, þ.e. að gera tillögur um öldrunarþjónustu á starfssvæði í samráði við forstöðumenn hinna ýmsu þátta þjónustunnar, að kveðja menn til starfa í þjónustuhópi aldraðra þannig að samsetning hópsins sé í samræmi við ákvæði 7. gr. laganna, að gera tillögu um fjölda starfsliðs í heimaþjónustu starfssvæðisins, að fylgja eftir að ákvæðum staðla eða reglugerða samkvæmt 19. og 30. gr. núgildandi laga sé framfylgt og að annast samningsgerð við einstaklinga

eða félagasamtök sem taka að sér þjónustu fyrir aldraða sé það ekki verksvið annarra.
    Öldrunarnefndirnar þurfa í dag að gera tillögur um þessi verkefni til stjórnar heilsugæslustöðva, félagsmálaráða eða félagsmálanefnda. Öldrunarmálaráð þarf hins vegar aðeins að standa skil á gerðum sínum eða verkefnum til viðkomandi sveitarstjórnar. Í þessu liggur meginmunurinn, á þeim lögum sem eru í gildi í dag og þeim breytingum sem við erum að leggja hér til.
    Þar sem við í minni hluta heilbr.- og trn. erum sammála því að það eigi að auka frelsi sveitarfélaga og sjálfsákvörðunarrétt þeirra í sínum málum þá féllumst við á það að skrifa upp á þetta frv. en þó eftir að það hafði farið í þessa ítarlegu umfjöllun í nefndinni og síðan til félmn. eins og kemur fram í nál. vegna þess að við töldum að það þyrfti að breyta lögum um félagsþjónustu sveitarfélags sem kom og síðar í ljós. Við skrifuðum hins vegar undir með fyrirvara vegna þess að við erum mjög ósátt við þann afgreiðslumáta sem hér er hafður og höfum gert við það ítrekaðar athugasemdir. Það væri langt mál, virðulegi forseti, að fara yfir það með hvaða hætti átti að afgreiða þetta frv. á sínum tíma út úr nefndinni og ég er hrædd um að við hv. þingmenn hefðum þá setið undir fjölmiðlagagnrýni og gagnrýni almennings fyrir fljótfærnisleg vinnubrögð ef við hefðum ekki aðeins staldrað við og minni hlutinn heimtað ítarlegri og betri umfjöllun um frv. en átti að vera.
    En það er töluverður munur á núgildandi lögum og því sem hér er lagt til. Af því að það kom hér fram áðan hjá einhverjum hv. þm. að það þyrfti ekki þessa heimild til þess að stofna öldrunarmálaráð þá held ég að það sé ekki rétt einfaldlega vegna þess að í 5. gr. laga um málefni aldraðra er kveðið á um stofnun öldrunarmálanefnda. Hér er verið að veita heimild til þess að skipa öldrunarmálaráð sem fari með hlutverk öldrunarmálanefnda sem á samkvæmt lögum að skipa. Ég held því að það sé óvefengjanleg staðreynd að lagaheimild þurfi til þess að setja á fót öldrunarmálaráð af því að það er kveðið sérstaklega á um þetta í núgildandi lögum.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu meira en orðið er en vil þó ítreka það að við hv. þm. sem erum í minni hluti heilbr.- og trn. höfum nánast á hverjum einasta fundi þar sem fjallað hefur verið um þetta frv. farið fram á önnur vinnubrögð. Niðurstaðan varð hins vegar þessi og það kemur síðan í hlut hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur sem er varaformaður nefndarinnar að mæla fyrir þessu frv. en hún hefur engu að síður gert grein fyrir þeim fyrirvörum sem við höfum við afgreiðsluna.