Málefni aldraðra

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 20:00:32 (5893)


[20:00]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Mig undrar ekki þó að það hafi verið töluverð umræða um þetta málefni vegna þess að sá fyrirvari sem stjórnarandstaðan hafði um þetta málefni er einmitt sá að hér eru ekki flutt tvö frumvörp heldur eitt um tvö málefni. Samt held ég að menn verði að rifja það aðeins upp að það var þó til mikilla bóta hjá hv. heilbr.- og trn. að hún skyldi leggja þetta mál til félmn. og félmrh. til umfjöllunar. Það ætlaði meiri hlutinn í heilbr.- og trn. satt að segja ekki að gera. Það var vegna þrábeiðni minni hlutans í nefndinni. Þessi tvö mál haldast svo í hendur að það er ekki hægt að samþykkja annað nema hitt sé með. En auðvitað er eðlilegast að þessi tvö mál séu flutt í tveim frumvörpum.
    Eins og fram hefur komið greina menn ekki lengur um innihald frv. en það gerðu menn í upphafi og það var þess vegna sem þetta frv. var ekki afgreitt með hraði fyrir jól. Vegna þess að það var ýmislegt í innihaldi frv. sem menn greindi á um. En um það hefur náðst samkomulag í nefndinni.
    Og mig langar að minnast á það vegna þess að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson ræddi um það að hér væri verið að samræma störf sem áður hafa verið í tveim nefndum, þ.e. í félagsmálaráði annars vegar og hins vegar í byggingarnefnd öldrunarmála, að það hefði verið eðlilegast fyrst á annað borð var verið að samræma og setja undir einn hatt að heimilishjúkrun og heimilishjálp hefðu verið sett undir sama hatt. Það hefði komið öldruðum enn þá betur en nokkurn tíma það sem er verið að gera hér þó að ég sé ekki að gera lítið úr því.

    Þó ég mæli hér fyrir þessu nál. sem varaformaður í heilbr.- og trn. þá bótmæli ég ekki þessari málsmeðferð en tel þó að innihald frv. sé orðið miklu betra en það var fyrir jól.
    Af því að hv. þm. Svavar Gestsson spurði um það í umræðunni hvort frv. sem hann lagði fram sem varðar húsnæðismál aldraðra verði ekki lagt fram samhliða þessu, þá er það ekki tilbúið enn til afgreiðslu en ég mun svo sannarlega ýta á það mál vegna þess að það er mjög mikilvægt og hefur fengið jákvæða umfjöllun, bæði umsagnir og eins umfjöllun í þinginu.
    Hæstv. forseti hefur skorið úr um að það fari ekki fram atkvæðagreiðsla um þetta mál fyrr en það hefur verið rannsakað frá lagalegu sjónarmiði. Ég tek undir það með forseta og mér finnst það vera ásættanlegt í þessum máli.