Fjáröflun til vegagerðar

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 10:36:52 (5895)


[10:36]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum. Þetta er stutt frv., lætur lítið yfir sér, er aðeins ein grein auk gildistökugreinar.
    Þess ber að geta að á vegum fjmrh. hefur um hríð starfað nefnd sem falið var að skoða núverandi þungaskattskerfi með það í huga að kanna hvort rétt væri að leggja það niður í núverandi mynd og taka þess í stað upp skattlagningu á orkugjafan sjálfan, þ.e. olíuna. Ein ástæða þess að rétt hefur verið talið að skoða nýjar leiðir varðandi þess skattlagningu er sú að almennt er talið að núverandi kerfi sé mjög óskilvirkt og undandráttur mjög mikill. Önnur ástæða er sú að ljóst er að núverandi þungaskattskerfi er mjög óhagstætt fyrir dísilfólksbíla, sem sést best á því að af um 130.000 fólksbílum sem skráðir eru á landinu eru einungis 6.000 dísilbílar, en dísilbílar eru að mörgu leyti taldir vegna nýju vélanna sem í þeim eru vera heppilegri og umhverfisvænni ef eitthvað er. Í þriðja lagi má bæta því við að í Noregi var nýlega breytt um kerfi og hætt að nota mæla en í staðinn tekið upp það kerfi sem víðast hvar gildir, að leggja skattinn á sjálfan orkugjafann.
    Hagsmunaaðilar í landflutningum hafa kvartað mikið yfir að vegna þess að tiltölulega auðvelt sé að komast hjá skattheimtu í þungaskattskerfinu án þess að upp komist sé samkeppnisstaða þeirra sem fara vilja að lögum nánast vonlaus. Til úrbóta hefur verið bent á þrjár leiðir. Í fyrsta lagi að leggja gjald á olíuna þar sem sú olía sem ekki er notuð af ökutækjum yrði lituð og merkt. Í öðru lagi hefur verið bent á að leggja gjald á alla olíu sem mögulegt er að nota á ökutæki, án þess að lita eða merkja olíuna, en síðan yrði þeim aðilum sem ekki eiga að bera gjaldið endurgreitt í gegnum virðisaukaskattskerfið. Og í þriðja lagi hefur verið bent á þá leið að viðhalda núverandi kerfi en gera á því nauðsynlegar endurbætur til að bæta skilvirkni þess.
    Eins og margoft hefur komið fram hef ég lýst áhuga á olíugjaldsleiðinni en nefndin sem um þetta mál fjallar hefur enn ekki skilað endanlegu áliti. Ljóst er að ef tekin verður ákvörðun um að leggja til að lagt verði gjald á olíuna og núverandi kerfi lagt niður þá þarfnast slík breyting nokkurs undirbúnings áður en hún tekur gildi. Samkvæmt þessu frumvarpi sem ég mæli hér fyrir er einungis verið að opna fyrir þann möguleika ef tekin verður ákvörðun um að leggja á olíugjald að unnt sé að koma til móts við þá aðila sem samkvæmt núverandi þungaskattskerfi eiga að vera með ökumæla og þyrftu því að kaupa sér ökumæli eftir að slík ákvörðun um olíugjald hefur verið tekin en ekki komin til framkvæmda. Miðað við verð ökumæla í dag, sem er u.þ.b. 30.000 kr. með ísetningu og að árlega sé þörf fyrir að endurnýja 1.000 mæla, myndi kostnaður vegna þessarar breytingar vera 22,5 millj. kr.
    Þess skal getið að þetta frv. er flutt í fullu samkomulagi við samgrn. og Vegagerð ríkisins. Það þykir nauðsynlegt að hafa þessa heimild til þess að sýna þeim sem verða að festa kaup á mælum um sinn að möguleiki sé á því að koma til móts við óskir þeirra um að þeir fái að nokkru eða öllu endurgreiddan kostnaðinn á meðan núverandi skattkerfi er við lýði.
    Ég tek það fram eins og ég hef reyndar gert margoft áður, að endanleg ákvörðun um það hvort þungaskattur í núverandi mynd verður lagður niður liggur ekki enn fyrir, en það stendur sem ég hef margoft sagt að það er mín stefna að svo verði. Ég vænti þess að hægt verði að framfylgja þeirri stefnu með lagafrv. á næsta þingi, helst fyrri parti þess þings, enda ætti nefndin sem vinnur að þessu máli að geta skilað niðurstöðu innan mjög skamms tíma. Þetta frv. er nokkurs konar undanfari þeirra breytinga sem í hönd hljóta að fara. Ég leyfi mér að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og til hv. efh.- og viðskn.