Tollalög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 10:42:26 (5896)


[10:42]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.
    Í desember á síðasta ári skipaði ég nefnd til að semja reglur um athugun á því hvort beita eigi jöfnunartollum og hvernig álagningu þeirra skuli háttað og eftirliti með framkvæmd þeirra. Auk fulltrúa fjmrn. átti ríkistollstjóri sæti í nefndinni og fulltrúi frá viðskrn. og ríkisskattstjóra. Óskaði ég eftir því að nefndin hraðaði störfum sínum þannig að unnt væri að taka afstöðu til tillagna hennar fyrir þinglok nú í vor.
    Í erindisbréfi nefndarinnar kom fram að umræddar reglur skyldu taka til eftirfarandi atriða:
    1. Skilyrða fyrir álagningu jöfnunartolla.
    2. Hvenær rannsókn skuli fara fram.
    3. Rannsókna stjórnvalda.
    4. Álagningar jöfnunartolla, fjárhæða, tímamarka o.fl.
    5. Aðgerða til bráðabirgða og afturvirkra ráðstafana.
    Um nokkurt skeið hefur átt sér stað umræða um álagningu undirboðs- eða jöfnunartolla á erlend skipasmíðaverkefni, einkum viðgerðir skipa. Við athugun í fjmrn. kom fljótt í ljós að það er ýmsum erfiðleikum bundið að grípa til slíkra aðgerða. Í fyrsta lagi er einungis heimilt samkvæmt gildandi lögum að leggja undirboðs- og jöfnunartolla á vörur en ekki þjónustu en umfjöllun hagsmunaaðila hefur að miklu leyti snúið að viðgerðarverkefnum. Í öðru lagi var í upphafi ljóst að það skorti almennar reglur um hvernig standa bæri að álagningu undirboðs- og jöfnunartolla. Þrátt fyrir heimild í tollalögum sem hefur verið þar um árabil hefur ekki verið gripið til álagningar slíkra tolla áður.
    Loks er ljóst að álagning undirboðs- og jöfnunartolla er háð leikreglum alþjóðlegra samninga sem Íslendingar eru aðilar að.
    Rétt er að árétta strax að ákvæði ýmissa samninga takmarka rétt okkar til að beita undirboðs- og jöfnunartollum á innflutning. Skiptir í því sambandi mestu máli samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sem gerir ráð fyrir að þessu úrræði verði ekki beitt innan svæðisins. Ákvæði fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert við einstök ríki innan Evrópu kunna og að takmarka rétt okkar í þessu efni.
    Nefndinni sem ég skipaði var ætlað að móta framkvæmdareglur sem tækju mið af þessum atriðum. Nefndin lauk störfum fyrir skömmu og hefur lagt fram drög að reglugerð sem tekur bæði til álagningar undirboðs- og jöfnunartolla. Áður en af útgáfu hennar getur orðið þarf þó að gera breytingar á tollalögunum sem gerð er tillaga um í þessu frv.
    Í frumvarpinu felast fjórar efnisbreytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að heimilt verði að beita undirboðs- og jöfnunartollum þegar um er að ræða þjónustuviðskipti en núverandi ákvæði tollalaga eru bundin við vörur. Í öðru lagi er lagt til að heimilt verði að láta ákvörðun um undirboðs- og jöfnunartolla gilda lengur en nú er heimilt. Í þriðja lagi að heimilt verði í undantekningartilvikum að leggja á undirboðs- eða jöfnunartolla með afturvirkum hætti. Og í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að fjármálaráðherra geti skipað nefnd sem falin verði rannsókn á kærum um innflutning á undirboðskjörum eða með ríkisstyrkjum.
    Gerður er greinarmunur á undirboðstollum annars vegar og jöfnunartollum hins vegar. Undirboðstollum er beitt gagnvart vörum sem boðnar eru fram á undirboðskjörum, þ.e. seldar á verði sem er lægra en verð sömu þjónustu á heimamarkaði hennar eða í einhverju öðru landi. Jöfnunartollum er hins vegar beitt gagnvart vörum sem njóta ríkisstyrkja við framleiðslu eða við útflutning. Markmið með álagningu jöfnunartolla er að eyða áhrifum ríkisstyrkja á verð vörunnar.
    Reglugerðin um undirboðs- og jöfnunartolla verður væntanlega gefin út þegar og ef frv. þetta verður að lögum. Helstu efnisatriði reglugerðarinnar eru eftirfarandi:
    Í I. kafla reglugerðarinnar er gildissvið hennar afmarkað og hugtök skilgreind. Gert er ráð fyrir að ákvæðum hennar verði bæði hægt að beita gagnvart vöru- og þjónustuviðskiptum, enda verði nauðsynlegar breytingar gerðar á tollalögunum vegna þjónustuviðskiptanna. Síðan koma ákvæði þar sem skilgreind eru hugtök, svo sem undirboð, eðlisverð, útflutningsverð og ríkisstyrkir. Auk þess eru í viðauka með reglugerðinni rakin dæmi um hvað telja beri ríkisstyrki sem heimilt er að beita jöfnunartollum gegn. Þá eru í I. kafla reglugerðarinnar ítarlegar leiðbeiningar um það hvernig bera á saman eðlisverð við undirboðsverð annars vegar og hins vegar við verð vöru sem nýtur ríkisstyrkja. Jafnframt eru leiðbeiningar um það hvernig bregðast á við innflutningi frá löndum sem ekki búa við markaðshagkerfi. Þá koma ákvæði um mat á tjóni af völdum innflutnings á undirboðskjörum eða með styrkjum, en sem kunnugt er er það eitt af meginskilyrðum fyrir álagningu undirboðs- og jöfnunartolla að innlendur atvinnurekstur hafi orðið fyrir tjóni og sannað sé að orsakir þess megi rekja til undirboðs eða ríkisstyrkts innflutnings.
    Ég tek það fram, hæstv. forseti, að ég er að rekja hér efni reglugerðar sem mun byggjast á lögum, verði þessi breyting í frv. að lögum, og eins og síðar mun koma fram, þá er ætlunin að reglugerðardrögin, en það hefur farið mikil vinna í að undirbúa þessi drög, verði send hv. nefnd til skoðunar.
    Í II. kafla reglugerðarinnar eru reglur um málsmeðferð. Gert er ráð fyrir því að mál hefjist á því að innlendur aðili, sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna innflutnings á undirboðskjörum eða með ríkisstyrkjum, sendi fjmrn. kæru þar að lútandi. Með kærunni skulu fylgja gögn sem renna stoðum undir efni

kærunnar. Gert er ráð fyrir því að á grundvelli þeirra gagna sem lögð eru fram með kærunni sé mögulegt að meta hvort hefja eigi frumrannsókn málsins eða vísa kærunni frá. Ráðuneytið sendir kæruna þegar í stað til samráðsnefndar sem í reglugerðinni er gert ráð fyrir að komið verði á fót. Nefndin er skipuð af fjmrh. en viðskrn., utanrrn., sjútvrn. og landbrn. tilnefna einn mann hvert til setu í nefndinni til fjögurra ára í senn. Að auki er gert ráð fyrir að fulltrúi frá Samkeppnisstofnun og ríkistollstjóri eigi sæti í nefndinni en formann hennar skipar fjmrh. án tilnefningar. Nefndinni er ætlað að starfa sjálfstætt og faglega að öllum þáttum rannsóknarmála er varða undirboðs- og jöfnunartolla. Ef ágreiningur er í nefndinni um túlkun á fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að sker utanrrn. úr þeim ágreiningi.
    Strax og kæra berst samráðsnefndinni er gert ráð fyrir að fram fari frumathugun á fyrirliggjandi gögnum. Það er háð mati nefndarinnar hvort framhald verði á rannsókn málsins eða hvort kærunni sé hafnað þegar á því stigi. Til að rannsókn geti haldið áfram er nauðsynlegt að fyrir liggi gögn sem sanni eða a.m.k. leiði sterkum líkum að því að um undirboð eða ríkisstyrki sé að ræða og að innlendur atvinnurekstur hafi orðið fyrir tjóni af völdum þess og mögulegt sé að sanna orsakatengsl þarna á milli. Telji samráðsnefndin ofangreind skilyrði vera fyrir hendi hefst hin raunverulega rannsókn málsins með því að tilkynning er birt í Lögbirtingablaðinu um upphaf rannsóknar auk þess sem aðilum sem vitað er að málið varðar er send tilkynning þar að lútandi. Öllum aðilum er gefinn kostur á að senda skrifleg gögn og eftir atvikum að koma munnlega með athugasemdir fyrir samráðsnefndina.
    Ákvæði eru um meðferð trúnaðarupplýsinga sem berast nefndinni. Í undantekningartilvikum er gert ráð fyrir að farið geti fram nokkurs konar munnlegur málflutningur fyrir nefndinni. Gert er ráð fyrir að nefndin geti óskað aðstoðar innlendra sem erlendra aðila við rannsókn mála og enn fremur að nefndin geti óskað eftir aðstoð erlendra ríkja. Ef aðilar sem rannsóknin beinist að, einkum þeir erlendu, neita að aðstoða nefndina og veita umbeðnar upplýsingar eru engin þvingunarúrræði tiltæk gagnvart þeim. Hins vegar eru afleiðingarnar þær að hægt er að taka ákvörðun um álagningu undirboðs- og jöfnunartolla á grundvelli fyrirliggjandi gagna frá þeim aðila sem hefur hagsmuni af álagningu þeirra. Starf samráðsnefndarinnar felst m.a. í rannsókn og gagnaöflun um tilvist undirboða eða ríkisstyrkja, könnun á tjóni og orsakatengslum þarna á milli. Enn fremur er nefndinni ætlað að reikna út fjárhæð tollsins en samkvæmt reglugerðinni má hann ekki vera hærri en sem nemur mismuninum á undirboðsverðinu og því verði sem tekið er til samanburðar ef um undirboðstolla er að ræða eða jafnhár greiddum styrkjum og uppbótum ef um jöfnunartolla er að ræða.
    Í III. kafla reglugerðarinnar eru ákvæði um hvaða afgreiðslu mál geta fengið að frátalinni ákvörðun um álagningu undirboðs- og jöfnunartolls.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að á meðan á rannsókn máls stendur geti sá aðili sem rannsóknin beinist að samþykkt tillögu frá samráðsnefndinni eða boðist til að gera úrbætur sem eyða mundu áhrifum undirboðsins eða ríkisstyrkjanna og er þá gert ráð fyrir að hætt verði við rannsókn málsins og fallið frá álagningu tolla. Í undantekningartilvikum er þó heimilt að ljúka rannsókn þó ljóst sé að ekki verði gripið til aðgerða gegn þeim innflutningi sem rannsóknin beinist að ef staðið verður við loforð um úrbætur.
    Í öðru lagi eru í undantekningartilvikum heimilaðar aðgerðir til bráðabirgða á meðan á rannsókn máls stendur en gert er ráð fyrir að hún geti að hámarki tekið eitt ár. Til að hægt sé að grípa til bráðabirgðaaðgerða verða að liggja fyrir við frumathugun máls nægjanlegar sannanir fyrir því að skilyrði fyrir álagningu tollanna séu fyrir hendi. Samráðsnefndin metur hvort þau skilyrði séu fyrir hendi. Aðgerðir til bráðabirgða eru fólgnar í því að innflytjendum er gert að setja tryggingu fyrir undirboðs- og jöfnunartolli sem verður innheimtur við endanlega ákvörðun um álagningu slíkra tolla. Ef tryggingin er hærri en endanlegur tollur verður mismunurinn endurgreiddur. En hins vegar er ekki hægt að innheimta hærri toll en sem nemur tryggingunni þótt endanlegir útreikningar sýni að rétt hefði verið að krefjast hærri trygginga. Ég tek það skýrt fram að þetta er nauðsynlegt til þess að ljóst sé fyrir innflytjandann að ekki verði um hærri tolla að ræða heldur en upphafleg trygging er enda væri slíkt varla heimilt á grundvelli almennra laga.
    Í þriðja lagi er í undantekningartilvikum hægt að leggja á undirboðs- og jöfnunartolla með afturvirkum hætti. Skilyrði þess að tollar verði lagðir á afturvirkt eru einkum þau að um mikinn innflutning hafi verið að ræða í skamman tíma sem uppfylli önnur skilyrði reglugerðarinnar og líkur séu á að álagning tolla afturvirkt geti komið í veg fyrir að slíkur innflutningur endurtaki sig.
    IV. kafli reglugerðarinnar fjallar um álagningu og innheimtu undirboðs- og jöfnunartolla. Eins og ég sagði áður ber samráðsnefndin hitann og þungann af undirbúningi álagningar undirboðs- og jöfnunartolla. Hins vegar er hin formlega heimild til álagningar tollanna í höndum fjmrh. Gert er ráð fyrir því að samráðsnefndin geri tillögur til fjmrh. um það á hvaða vörur lagðir verða á tollar og hve háir þeir skuli vera.
    Að lokum er rétt að geta þess að við undirbúning frv. sem hér er til umræðu hefur verið höfð hliðsjón af gildandi GATT-samningi og einnig texta Úrúgvæ-samningsins. Reglugerðin er að nokkru leyti byggð á reglum Evrópusambandsins um framkvæmd álagningar undirboðs- og jöfnunartolla gagnvart ríkjum utan sambandsins. Reglugerðardrögin verða kynnt efh.- og viðskn. þegar hún tekur málið fyrir. Gífurleg vinna hefur farið fram í fjmrn. en að samningi frv. og reglugerðar komu einnig utanrrn., iðnrn. og sjútvrn. og áhersla var lögð á að samstaða væri um þær leikreglur sem ráðuneytið hefur mótað.
    Ég hef hér, virðulegi forseti, lýst frv. en jafnframt farið nokkuð mörgum orðum um þá reglugerð

sem sett verður nái þetta frv. fram að ganga. Það hef ég gert vegna þess að lagafrv. veitir grundvöll fyrir slíkri reglugerð en það er einmitt í reglugerðinni sem koma fram þau tæki sem ríkisstjórnin getur notað til þess að koma í veg fyrir að við þurfum að sætta okkur við undirboð og ríkisstyrki alls konar. Ég hef tekið það fram áður og ég veit að hv. þm. er það að sjálfsögðu ljóst að í vissum tilvikum ber að leita til annarra aðila, t.d. Samkeppnisstofnunar, ef um er að ræða framleiðslu innan Evrópska efnahagssvæðisins eða þar sem gerðir hafa verið sérstakir viðskiptasamningar, þá á að leita til Samkeppnisstofnunar sem á að sjá til þess að farið sé að settum leikreglum um samkeppni. Þessi reglugerð og þau lög sem hér er verið að setja munu þess vegna fyrst og fremst gilda annars vegar um ríkisstyrki og uppbætur ýmiss konar þar sem jöfnunartollar eiga við og um undirboð gagnvart þjóðum sem eru utan Evrópska efnahagssvæðisins og við höfum ekki gert sérstaka samninga við sem taka til þessa tiltekna atriðis. Ég veit að eftir þessu hefur verið beðið.
    Ég vil taka það fram að verði þessi lög og reglugerðin sem á þeim byggist nýtt, sem ég á von á og það er verið að flytja þetta frv. hér vegna þess að ætlunin er að nýta þessi tæki, þá munu Íslendingar skipa sér í flokk þeirra þjóða og kannski verða sú þjóð sem fyrst hefst handa við að nýta tæki á borð þetta. Það kann að reynast torvelt og erfitt en í undirbúningi fjmrn. hefur verið reynt að tryggja að um það geti náðst sem breiðust samstaða þeirra ráðuneyta sem um þessi mál fjalla og hef ég margoft tekið fram að að málinu hafa komið m.a. fulltrúar sjútvrn. og landbrn.
    Þetta vildi ég, virðulegur forseti, að kæmi fram hér við 1. umr. málsins. Ég legg til að málinu verði vísað til hv. efn.- og viðskn. og 2. umr. og hvet eindregið til þess að málið fái afgreiðslu á yfirstandandi þingi.