Tollalög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 11:04:47 (5898)


[11:04]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég fagna því frv. sem hér hefur verið lagt fram. Ég tel að þar sé komin fyrsta stóra viðurkenningin fyrir því að það þurfi að gera eitthvað í þessum málum. Ég held að það sem maður kannski ætti að kvíða mest núna sé að þetta fyrirkomulag, sem hér hefur verið lýst fyrir hv. þm., verði of þungt í vöfunum. Og það að mál skuli geta tekið svona langan tíma eins og þarna er talað um, allt að ári, þýðir að það er mjög erfitt að bregðast við. Eins geri ég mér ekki fulla grein fyrir því og vil því spyrja hæstv. ráðherra um það hvort á grundvelli rannsókna sem nefndin hafi gert á viðskiptum fyrri tíma eða verkefnum sem nýlega hafa verið unnin verði hægt að taka almenna ákvörðun um undirboðs- og jöfnunartolla gagnvart ríki sem keppir við okkur með slíkum hætti. Eða hvort, eins og hæstv. ráðherra lýsti því hér áðan, það þurfi ævinlega að rannsaka hvert mál fyrir sig og þar af leiðandi verði ekki hægt að bregðast við fyrr en eftir að verkefnin hafa verið unnin öðruvísi en með þessari bráðabirgðaákvörðun sem gæti orðið mjög erfið í framkvæmd að minni hyggju vegna þess að það hlýtur að verða mjög erfitt, ef hvert einasta mál þarf að rannsaka með þessum hætti, að ákveða upphæð gjaldanna með einhverri vissu. Ég geri ráð fyrir því að verði síðan niðurstaðan sú að menn hafi t.d. lagt of há gjöld á þá muni myndast einhver skaðabótaréttur, alla vega endurgreiðsluréttur þeirra sem hafa boðið í viðkomandi verkefni.
    En mitt erindi í ræðustól vegna þessa máls er fyrst og fremst að fagna því að menn hafa snúið hér frá villu síns vegar. Vonandi er sú ákvörðun heil að því leytinu til að menn ætli sér að fylgja þessu eftir sem hér er verið að segja. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra talaði um að það hefði náðst fullkomin samstaða á milli ráðuneytanna í þessu máli. Það setur að minni hyggju spurningarmerki við framkvæmd málsins að fullt samkomulag skuli hafa náðst við sjútvrn. um þessa hluti. Og þess vegna spyr ég: Er það þá öruggt að hæstv. ráðherra treysti sér til að fylgja þessu þannig eftir að íslenskar skipasmíðastöðvar standi ekki ævinlega frammi fyrir því að erlendir aðilar fái verkin og það verði síðan eftir einhvern langan tíma sem það komi í ljós hvort þarna hafi verið eðlilegt tilboð á ferðinni eða ekki og það verði af þeim ástæðum mikil óvissa yfir allri þessari starfsemi áfram.
    Mér finnst t.d. þessi samstarfsnefnd vera dálítið fjölmenn og benda til þess að menn hafi ekki fullkomið vald á málinu og því spyr ég: Er það þá meiningin, ef það verður ekki full samstaða í þessari samráðsnefnd, að fáir aðilar í henni geti t.d. stöðvað þau mál af sem þar eru á ferðinni? Ef það verður ágreiningur, verður hann þá leystur í nefndinni með sama hugarfari og samning þessa frv. og reglugerðar, þ.e. að full samstaða náist í nefndinni um það sem gera á? Ef það er þannig þá óttast ég að það verði ekki mikið gagn af þessu. Vegna þess að mér og hv. þm er vel kunnugt um afstöðu t.d. aðila sjávarútvegsins til þessa máls sem hafa verið alfarið andvígir því að það væri nokkuð gert til að koma til móts við íslenskar skipasmíðastöðvar í þeim leik sem hér er verið að fjalla um. Ég held að það þurfi að vera alveg ljóst hvað menn ætla sér hér. Ég bið hæstv. ráðherra að tala mjög skýrt í því efni hér á eftir, að hann lýsi því mjög ákveðið með hvaða hugarfari hann ætlar að beita þeim tækjum sem hann er hér að leggja til að hann fái í hendurnar.
    Við alþýðubandalagsmenn höfum haft mikinn áhuga á þessu máli á undanförnum árum og höfum á þessu kjörtímabili flutt um það tvö þingmál. Hið fyrra var á 115. löggjafarþinginu um þriggja ára þróunarátak í skipasmíðaiðnaði og nýsmíðum sem hv. þm. Svavar Gestsson var 1. flm. að. Í því frv. var einmitt gert ráð fyrir því að beita aðgerðum af því tagi sem hér er verið að tala um. Og eins flutti ég till. til þál. um jöfnunartolla á skipasmíðaverkefni sem var vísað til ríkisstjórnarinnar í fyrra. Ég segi bara það að ég er sannfærður um að það er mikill vilji hjá hv. alþm. til þess að taka á þessum málum og ég efast ekkert um það að hæstv. ráðherra mun hafa allan stuðning ef hann vill fylgja þessum málum fast fram og ég hvet hann eindregið til þess að gera það. Ég hvet hann mjög eindregið til þess að lýsa því ákveðið og skýrt hér yfir með hvaða hugarfari hann ætlar að beita þessum tækjum sem hann fær hér í hendurnar. Og ég efast satt að segja ekkert um það að þingið mun vera tilbúið og hv. þingnefndir sem koma að þessu máli til þess að flýta því þannig að þetta þingmál geti orðið að lögum á þessu þingi.