Tollalög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 11:12:02 (5899)


[11:12]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég kem fyrst og fremst upp til þess að þakka fyrir það að þetta mál skuli vera hér flutt almennt og jafnframt að heita stuðningi við málið og fara fram á það að hv. iðnn. fái málið til umsagnar af sinni hálfu vegna þess að auðvitað snertir þetta fyrst og fremst íslenskan iðnað, þær ákvarðanir sem yrðu teknar grundvelli þeirra laga sem hér eru gerðar tillögur um að breytt verði.
    Eins og fram kom í máli hv. 3. þm. Vesturl. hér áðan höfum við alþýðubandalagsmenn flutt fjöldann allan af þingmálum um þetta efni á undanförnum árum og á þessu kjörtímabili ein tvö og það er nokkuð merkilegt að hugsa um það að ekki skuli fyrir löngu hafa verið breytt lögum í því skyni sem hér eru gerðar tillögur um. Fyrir utan þau þingmál sem hér hafa verið nefnd og flutt voru af hv. þm. Alþb., þá hygg ég að um langt árabil hafi þingmenn verið að flytja þingmál af þessum toga. Ég man a.m.k. eftir því líklega hálfan annan áratug aftur í tímann að menn hafa verið að flytja frumvörp, fyrirspurnir og þingsályktunartillögur um þessi mál og ég hygg að ástæðurnar fyrir því að þau hafi ekki orðið að veruleika séu tvær. Í fyrsta lagi sú, eins og hv. þm. Páll Pétursson orðaði það, að þeir menn sem hafa stýrt þessum málum og utanríkisviðskiptamálum af okkar hálfu hafa iðulega verið kaþólskari en páfinn og hafa ekki fengist til þess að grípa til nauðsynlegra aðgerða til þess að vernda íslenska hagsmuni. En í öðru lagi hefur ástæðan vitaskuld verið sú að atvinnulíf í það heila tekið hefur verið í miklum blóma á Íslandi. Menn hafa verið hér með fulla atvinnu og miklu meira en það þannig að þörfin fyrir breytingar að þessu leytinu til hefur ekki verið eins sterk og hún er núna á þessum atvinnuleysistímum. Og það er þess vegna sem þessar kröfur koma upp, harðar núna en nokkru sinni fyrr, að gerðar verði ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir erlend undirboð og að erlendir ríkisstyrkir hafi áhrif á samkeppnistöðu íslensks iðnaðar. Þess vegna er það að þegar mál af þessu tagi er loksins flutt hlýtur að vera um það samstaða og það er sérstaklega ánægjulegt að þar skuli þrátt fyrir allt fara svo að það komi í hlut þeirra sem nú stýra málum lands og þjóðar að flytja mál af þessum toga vegna þess að það hefur gjarnan verið úr þeirra röðum sem menn hafa verið tregir til að grípa til aðgerða af þeim toga sem hér eru þó gerðar tillögur um.

    Ég vil einnig þakka hæstv. fjmrh. fyrir ítarlega ræðu sem hann flutti um málið og þakka honum sérstaklega fyrir það að hann skuli hafa gert grein fyrir þeim reglugerðardrögum sem liggja fyrir í fjmrn. varðandi notkun á þeim lagaheimildum sem hér er verið að gera tillögur um að breytt verði. Hins vegar er alveg bersýnilegt að hér er um talsvert flókið mál að ræða eins og það er sett upp af fjmrn. og ég dreg það út af fyrir sig ekkert í efa að það sé nauðsynlegt að hafa mjög skýrar og nákvæmar, mér liggur við að segja smásmugulegar á köflum, reglugerðir eða reglugerðarákvæði og jafnvel lagaákvæði um mál af þessum toga. Hér er í raun verið að gera tillögur um fjórar meginbreytingar á lögum. Í fyrsta lagi að heimilt verði að beita undirboðs- og jöfnunartollum í þjónustuviðskiptum. Í öðru lagi að það verði heimilt að láta þessa tolla gilda lengur en núna er gert ráð fyrir í lögum. Í þriðja lagi að það megi leggja slíka tolla á að uppfylltum vissum skilyrðum með afturvirkum hætti sem er mjög merkilegt og fróðlegt að skuli vera gert ráð fyrir satt best að segja miðað við þá umræðu sem oft hefur farið fram um skyld mál hér. En ég dreg ekki í efa að niðurstaða fjmrn. sé rétt og tekin að vel yfirveguðu máli í þessu efni. Og í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að fjmrh. geti skipað nefnd til þess að fjalla um kærur í þessum efnum.
    Í II. kafla reglugerðarinnar eins og hæstv. fjmrh. kynnti hana hér áðan er fjallað um málsmeðferðina og út af fyrir sig verð ég að segja eins og er að ég finn mig ekki alveg öruggan í því hvort sú tillaga um málsmeðferð dugir og það sem ég hnaut um fyrst og fremst þegar hæstv. fjmrh. las þetta upp áðan var það hvort hér er um að ræða of flókið ferli eða óþarflega flókið ferli.
    Hæstv. fjmrh. var svo vinsamlegur að lána mér þá ræðu eða punkta úr þeirri ræðu sem hann flutti hér áðan um þetta mál sem mér finnst að staðfesti að nokkru leyti þær áhyggjur sem ég hef um það að hér sé um að ræða of flókið ferli sem geti haft það í för með sér að þessi lagaákvæði dugi ekki eins og til er ætlast, m.a. fyrir íslenskan skipasmíðaiðnað. Ég hlýt þess vegna að leggja á það áherslu að það verði reynt að ganga þannig frá þessu málsmeðferðarferli að það verði í senn öruggt og fljótvirkt þannig að það verði ekki hægt að þvæla mál langtímum saman á milli ráðuneyta og kærenda og ráðuneytis af því að hlutirnir séu ekki nákvæmlega eins og hér er gert ráð fyrir. Ég vil þess vegna leggja á það áherslu að ég hef áhyggjur af því að ferlið sé of seinvirkt og of flókið.
    Í öðru lagi verð ég að taka undir það með hv. þm. Páli Péturssyni að mér finnst varasamt að láta utanrrn. um það að úrskurða ef um er að ræða ágreining um túlkun á fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Mér finnst að þar sé verið að taka út úr kærunefndinni, ef ég má kalla hana því nafni, veigamesta þátt málsins, þ.e. spurninguna um fríverslunar- og milliríkjasamninga. Ég held satt að segja að miðað við þá reynslu sem við höfum af utanrrn., ekki bara núna heldur um langt árabil, og utanríkisviðskiptaráðuneytinu og viðskiptaráðuneytinu þar á undan, þá sé það mjög hæpið að láta utanrrn. um þetta úrskurðarvald með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Ég mundi ekki treysta utanrrn. fyrir því eins og nú standa sakir og tel þess vegna að þessi ákvörðun sem hér er verið að fjalla um, um túlkun á fríverslunar- og milliríkjasamningum og öðrum þáttum sem lúta að framkvæmd þessa máls, eigi að vera í höndum viðkomandi nefndar og í höndum fjmrh. að lokum. Ég tel að það sé brot á öllum venjulegum reglum hér um samskipti ráðuneytanna að utanrrn. ákveði hvernig tollum er beitt. Ég tel að það sé algerlega óeðlilegt að fela utanrrn. ákvörðunarvald um það hvernig tollum er beitt. Ef utanrrn. fær það vald, þá spyr ég: Hvar endar þá fjmrn. ef heimildum til skattlagningarákvarðana verður dreift út um ráðuneytin með þeim hætti sem hér gæti verið á ferðinni? Ég tel sem sagt að sú hugmynd sem hér er inni sé óeðlileg, utanrrn. eigi ekki að hafa þetta vald, fjmrn. eigi að hafa það og síðan ef fjmrn. tekur ákvarðanir sem utanrrn. er ósátt við, þá verður utanrrn. bara að kvarta undan því, annaðhvort að klaga það á Alþingi eða Alþýðublaðinu eða í öðrum fjölmiðlum svo ég vitni til þekktra dæma í þessum efnum --- nú eða stefna fjmrh. fyrir dómstóla eins og hefur gerst í þessari ríkisstjórn. Ég dreg því í efa að það sé skynsamleg leið að láta utanrrn. fá þetta vald og þá er ég ekki bara að tala um að það sé slæmt vegna þess að hæstv. núv. utanrrh. situr þar, sem er slæmt út af fyrir sig, það er fræðilegur möguleiki að þangað komi verri utanrrh. en hann. Þó að mönnum finnist það kannski skrýtið, þá er það örugglega hugsanlegt að þessu leytinu til þannig að ég legg á það áherslu að þetta mál verði skoðað.
    Eins og ég sagði áðan, þá styð ég málið efnislega og þakka hæstv. fjmrh. fyrir það og heiti því að komi málið til iðnn., sem ég vona, þá munum við afgreiða það fljótt og rösklega því að ég tel brýnt að þetta mál verði að lögum á yfirstandandi þingi þó skammt lifi eftir af því.