Tollalög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 11:31:07 (5901)


[11:31]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. sem hér hafa tekið til máls fyrir þau orð sem þeir hafa látið falla. Þau hafa verið á þann veg að þetta frv. njóti stuðnings hér á hinu háa Alþingi og ég vænti þess að sá stuðningur leiði til þess að frv. geti orðið að lögum á yfirstandandi þingi.
    Hv. 1. þm. Norðurl. e. lét það eftir sér í sinni ræðu að segja að það hafi verið dugleysi og frjálshyggja sem hefði komið í veg fyrir eðlileg vinnubrögð í þessum málum. Ég held að það sé full ástæða til að vísa þessum orðum hv. þm. á bug og nefna til sögunnar að það er nú einkenni frjálshyggjunnar, ef eitthvert einkenni hennar er til, að vilja frjáls viðskipti og eðlilega samkeppni. Þess vegna hafa margir gagnrýnt frjálshyggjuna einmitt fyrir það að þeir hafa viljað burt með ríkisstyrki og burt með undirboð. Þannig liggur það í stefnu frjálshyggjunnar að horfið sé frá slíkum vinnubrögðum. Því hlýtur hver sá sem áttar sig á því út á hvað frjálshyggjan gengur að skilja það og viðurkenna að hefði frjálshyggjan ríkt þá hefðum við

ekki þurft að grípa til aðgerða á borð við þær sem við erum að nefna hér í dag því að þeir samningar sem verið er að gera t.d. á vegum GATT eru allt samningar sem eru í anda frjálshyggjunnar, frjálsrar verslunar, frjálsrar milliríkjaverslunar og upprætingu á afskiptum eins og undirboðum og ríkisstyrkjum. Þetta vil ég að komi hér skýrt fram þó að ástæðulaust sé að taka heimspólitíkina og heilar stjórnmálastefnur sérstaklega fyrir þegar þetta mál er rætt og þarf ekki annað en að benda á að fjármálaráðherrar undanfarinna ára og áratuga og eins iðnaðarráðherrar hafa ekki allir verið úr hópi frjálshyggjumanna að því er ég best veit. (Gripið fram í.) Já, meira að segja sá sem hér stendur beitti sér fyrir því á sínum tíma, hefur haldið tryggð við þá stefnu og mun fylgja henni hér eftir sem hingað til.
    Þegar það er einnig skoðað að viðbrögðin hljóta að vera þau að ná fjármunum í ríkissjóð þá hljóta allir að skilja að flestallir fjármálaráðherrar eru áður en málið er kannað, eða ættu að vera það, mjög hrifnir af því að geta gripið til undirboðs- og jöfnunartolla því að það færir ríkinu tekjur. Það eru þess vegna ekki þær ástæður sem hafa ráðið því að ekki hefur verið gripið til aðgerða fyrr.
    Í skýrslu sem iðn.- og viðskrn. gaf út og var skýrsla nefndar sem vann að skýrslu um ríkisstyrki og undirboð kom mjög skýrt fram hver staðan er í þessu máli. Mig langar, með leyfi forseta, til að lesa hér örstuttan kafla úr þessari skýrslu til að skýra hver staða málsins var talin hafa verið og er talin vera þegar málið er grandskoðað. Í skýrslunni segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Athygli vekur að þjóðréttarsamningar sem Ísland er aðili að á sviði alþjóðaviðskipta taka enn sem komið er einungis til vöruviðskipta. Þjónustuverkefni eru hins vegar undanskilin. Af þessu mætti draga þá ályktun að Ísland væri óbundið af ákvæðum þessara samninga t.d. GATT-reglunum þegar kemur að hvers konar þjónustuviðskiptum, þar með töldum viðgerðum og breytingum á skipum. Starfshópurinn telur hins vegar eðlilegt að hafa hliðsjón af ákvæðum þjóðréttarsamninga sem málið varða þótt þjónustuviðskipti falli strangt til tekið utan þeirra. Þá er rétt að hafa í huga að ekki virðist tíðkað í öðrum ríkjum, t.d. Finnlandi eða Svíþjóð, að grípa til jöfnunar- og undirboðstolla vegna ríkisstyrkja eða undirboða hvort sem er vegna þjónustuverkefna eða nýsmíði skipa. Hafa þarf hugfast að ýmis ríki, t.d. Noregur, Bandaríki Norður-Ameríku og flest aðildarríki EB mæta ríkisstyrkjum annarra ríkja frekar með því að styrkja sinn eigin iðnað en að grípa til jöfnunartolla.``
    Ég geri hérna hlé á tilvitnuninni en í þessari tilvitnun er verið að svara fyrirspurn hv. 15. þm. Reykv. Síðan skal lesið áfram orðrétt:
    ,,Annað sjálfstætt álitaefni er hvort heimilt sé að óbreyttum landslögum að beita ákvæðum tollalaga um jöfnunar- eða undirboðstolla vegna viðgerðar- eða breytingaverkefna. Í XII. kafla tollalaga og í GATT-ákvæðum er einungis fjallað um vörur. Þannig virðast frumskilyrði fyrir álagningu slíkra gjalda vera að afrakstur nýsmíðinnar sé erlend vara. Engin vafi leikur á að erlend nýsmíðaverkefni uppfylla þetta skilyrði. Það sama á ekki við um skip sem send eru utan til viðgerða eða breytinga. Þá er ekki um hrein vöruviðskipti að ræða heldur erlenda þjónustu, þ.e. viðgerð eða aðra aðvinnslu á vöru sem þegar hefur verið framleidd. Starfshópurinn telur því lagaheimild skorta fyrir beitingu undirboðs- eða jöfnunartolla hvað varðar viðgerðir og breytingaverkefni nema gerðar verði breytingar á XII. kafla tollalaga.``
    Þetta er orðrétt úr þessari skýrslu og í fyrri partinum kemur einmitt fram að aðrar þjóðir hafa ekki gripið til þessara aðgerða heldur gripið til ríkisstyrkja fyrst og fremst. Ef litið er eingöngu til Bandaríkja Norður-Ameríku þá er það viðurkennt þar og hefur verið í marga áratugi að stáliðnaðurinn hefur verið verndaður af hernaðarlegum ástæðum. Og það á sér rætur í utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Ég vil taka það fram að hingað til hafa undirboðstollar kannski fyrst og fremst verið notaðir þar sem um hráefni er að ræða því að hráefni eðli máls samkvæmt hefur heimsmarkaðsverð. Þess vegna er svo auðvelt að eiga við undirboðstolla þegar um heimsmarkaðsverð er að ræða. En þegar varan verður samsett er nánast útilokað að um heimsmarkaðsverð sé að ræða og það er ekkert til t.d. sem heitir heimsmarkaðsverð á skipum. Það er misjafnt verð og það er ekki til neitt einingaverð sem kallað er heimsmarkaðsverð. Þetta veldur því að grípa þarf til svo flókinna úrræða eins og hér er verið að leggja til.
    Það hefur nokkuð verið gagnrýnt úrskurðarvald utanrrn. Í því sambandi vil ég taka fram að það var alveg bráðnauðsynlegt og var forsendan fyrir því að farið var af stað með þetta verkefni að tryggt væri að önnur ráðuneyti en fjmrn. væru með í þessu máli. Iðnrn. eðli málsins samkvæmt sækist eftir að leggja á þessa tolla til að skapa skilyrði fyrir innlendan iðnað. Landbrn. annars vegar og sjútvrn. eru hins vegar ráðuneyti þeirra greina sem geta lent í vandræðum vegna þessara ákvæða, sérstaklega sjútvrn. ef þeir vilja fylgja fram þeirri stefnu að útvegsmenn geti t.d. flutt inn skip og látið gera við skip erlendis algjörlega með þeim hætti að ekkert tillit sé tekið til þess hvort um ríkisstyrki eða undirboð sé að ræða. Þess vegna er það mikilvægt. En það verður líka að taka fram að utanrrn. fer með málefni Íslands gagnvart öðru ríki og gerir samninga við önnur ríki eins og lög kveða á um. Þess vegna getur ekki annað ráðuneyti ákveðið hvað felist í viðskiptasamningum við önnur ríki. Það getur ekki neinn annar aðili gert það nema dómstólar og að sjálfsögðu útilokar ekkert hér að leitað verði til dómstólanna. Þess vegna var talið eðlilegt að utanrrn. gæti úrskurðað hvað séu samningar og hvað ekki, hvað sem sagt leysi úr þeim ágreiningi þegar upp kemur um það hvað felist í samningum við önnur ríki. Ég hef ekki teljandi áhyggjur af þessu og tel að það sé mjög mikilvægt að ráðuneytin séu sammála um hvernig bregðast skuli við.
    Ég tek það skýrt fram að mér finnst eðlilegt að hv. iðnn. fái að skoða þetta frv. og reglugerð og sömuleiðis sjútvn. og landbn. eðli málsins samkvæmt.

    Hv. 3. þm. Vesturl., Jóhann Ársælsson, spurði hvort það hefði verið kannað á grundvelli gagna sem lægju fyrir hvort taka mætti almenna ákvörðun um undirboðstolla. Hygg ég að hann hafi verið að vísa þar t.d. til boða sem hafa komið frá pólskum skipasmíðastöðvum. Það er ekki hægt. Það er ekki hægt vegna þess að það verður að skoða hvert og eitt tilvik sérstaklega. Og ég ítreka það að í raun verður sá sem telur á sig hallað að leita réttar síns og sýna fram á, færa líkur að því að brotið hafi verið á honum og hann hafi orðið fyrir tjóni. Þess vegna er ekki hægt að taka almenna ákvörðun. Það verður að líta á hvert einstakt tilvik. Hins vegar verður gert ráð fyrir því í reglugerðinni og í lagafrv. að tækið sem notað er sé mjög skilvirkt og meira að segja gengið svo langt í undantekningartilvikum að nota megi afturvirkar aðgerðir.
    Ég vil taka það fram vegna þess sem sagt var um sjútvrn. að þetta hefur verið unnið algjörlega í tengslum við sjútvrn. eins og önnur ráðuneyti sem málið varða og ég hef enga ástæðu til að halda annað en að sjútvrn. styðji þessa starfsemi enda vita forráðamenn sjávarútvegs á Íslandi að það er mikið hagsmunamál fyrir sjávarútveginn að skipasmíðaiðnaður sé í landinu. Því auðvitað verða boðin allt önnur þegar búið er að drepa allan skipasmíðaiðnaðinn. Það hljóta menn að sjá. (Gripið fram í.) Það veit ég að sjávarútvegurinn skilur þótt kannski í einstökum tilvikum nýti menn sér það ef þeir sjá það fyrir sitt eigið fyrirtæki að þeir geti náð góðum kjörum í samningum við erlendar skipasmíðastöðvar. En þegar á heildina er litið þá skilja þeir það að sjálfsögðu. Það er ætlunin að beita þessu tæki og þess vegna lagði ég mikla áherslu á það að önnur ráðuneyti kæmu að málinu.
    Eins og kom fram hjá hv. 9. þm. Reykv. er þetta nokkuð flókið ferli. Það er rétt. En það er flókið vegna þess að við vildum fara að leikreglunum. Við viljum ekki brjóta lög og við viljum ekki lenda í því að við séum brotnir á bak aftur og okkar aðgerðir með því að bent verði á að við séum að brjóta þá samninga og þau lög sem við höfum sjálf undirgengist.
    Ég held að ég hafi nefnt það helsta sem hefur komið fram hér í umræðunum og ástæða er til að ræða á þessu stigi málsins. Ég tek það fram að sjálfsögðu að málið verður að fá skoðun í nefndum. Ég tel að það þurfi þá sérstaklega að líta til reglugerðarinnar og mun kappkosta að hún verði tilbúin í endanlegu formi en gæti þá tekið breytingum samkvæmt ábendingum sem þar kæmu fram.
    Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég hef sagt áður að málið fari sinn veg hér inn í þingið og undirstrika vilja minn til þess að þetta frv. geti orðið að lögum á yfirstandandi þingi.