Tollalög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 11:44:57 (5902)


[11:44]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt þeim reglugerðardrögum sem nú liggja fyrir og hæstv. ráðherra kynnti hér áðan er gert ráð fyrir því að utanrrn. hafi úrskurðarvald í öllum þeim málum sem snerta undirboðin enda sé um að ræða spurningu um túlkun á milliríkjasamningum. Nú liggur fyrir á borðum þingmanna, sem eru að sligast undan pappírum frá utanrrn., aðeins brot af þeim milliríkjasamningum sem utanrrn. mun geta beitt fyrir sig á ýmsum sviðum að því er varðar undirboðstolla o.fl. Ég tel að með því ákvæði sem hæstv. fjmrh. gerði hér grein fyrir áðan, að utanrrn. ætti að geta ráðið þarna úrslitum, sé verið að afhenda því vald til þess að hindra það að íslenskir hagsmunir nái fram að ganga af því að utanrrn. getur alltaf ef því sýnist svo fundið einhverja smugu í þessum haugum öllum sem nú er verið að leggja hér fyrir þingið. Og ég vil leyfa mér að spyrja í leiðinni hæstv. forseta: Er það ætlunin að Alþingi afgreiði þennan haug fyrir lok þingsins í vor?