Tollalög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 11:46:31 (5903)


[11:46]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Varðandi túlkun á milliríkjasamningum vil ég taka það fram að auðvitað má ræða það hvort menn vilja hafa annan háttinn á. En það skiptir öllu máli að sá íslenski aðili sem fer með íslenska hagsmuni gagnvart öðrum þjóðum, sem er utanrrn., fái að túlka það ef um ágreining er að ræða hvort atriði stangist á við samninga sem við höfum gert við önnur ríki. Ég tel að það sé nokkuð djarft þegar hv. alþm. standa hér upp og gefa það í skyn að utanrrn., hver sem þar á í hlut sem ráðherra, fari ekki að málum og úrskurði ekki á þann veg sem íslenskir hagsmunir vilja. Þegar ég segi þetta verðum við að hafa það í huga að það eru grundvallarhagsmunir Íslendinga sem lítillar þjóðar að farið sé að þeim milliríkjasamningum sem í gildi eru og Íslendingar eru aðilar að. Ég hef enga ástæðu til þess að halda annað en utanrrn., hver sem ráðherrann er, sé til þess hæft að skera úr um ef um ágreining er að ræða.