Tollalög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 11:56:15 (5908)


[11:56]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég er ekki alveg sáttur við afstöðu hæstv. ráðherra í þessu. Ég trúi því að sá stuðningur, sem er fyrir hendi frá pólskum yfirvöldum og þessi fyrirtæki hafa aðgang að, sem gerir það mögulegt að þessi fyrirtæki geta boðið miklu lægri verð, að sá stuðningur sé ævinlega til staðar og út frá þeim forsendum hljóti að mega taka ákvarðanir um einhvers konar grunnjöfnun sem hægt væri að styðjast við þegar menn taka afstöðu til tilboðanna. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að menn reyni að vinna að því að þetta verði gert með þeim hætti að ákvarðanir um það að taka tilboðum byggist á upplýsingum sem eru þá fyrir hendi og það sé hægt að bregðast við strax og fjallað er um sjálf tilboðin.
    Ég vonast til þess að í hv. nefnd fari menn yfir þetta og reyni að gera sér grein fyrir því með hvaða hætti þessi mál ganga fyrir sig og reyni að finna leið til þess að það sé hægt að bregðast strax við en það þurfi ekki að taka marga mánuði og að viðkomandi verkefni séu auk þess farin úr höndum þeirra sem áttu kannski frekast rétt á því að fá þau til sín og að fyrirtækin sem áttu þennan rétt þurfi síðan að sitja uppi með það að bera kostnað af því að leita þessa réttar síns og hafa ekki möguleika á því að fá viðkomandi verkefni til sín.