Tollalög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 11:58:11 (5909)


[11:58]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er ákaflega mikilvægt að við gerum mun á tvennu. Annars vegar jöfnunartollunum og hins vegar undirboðstollunum. Það er hárrétt sem hv. þm. ýjaði að að þegar litið er á jöfnunartollana, sem eru viðbrögð við ríkisstyrkjum eða einhvers konar opinberum uppbótum, þá er að sjálfsögðu hægt að skrifa til pólskra stjórnvalda eða til þeirra stjórnvalda sem hlut eiga að máli eða jafnvel til þeirra fyrirtækja sem hlut eiga að máli og segja að á meðan í gangi séu styrkir og uppbætur þá verði tekið á því með viðeigandi hætti ef slíkt kerfi er áfram. Það er auðvelt. En það segir bara hálfa söguna og ef við lítum á Pólland sérstaklega þá segir það lítið brot sögunnar því að næsti kafli við eru undirboðin og undirboð, ef um er að ræða, eru mismunandi frá einu boði til annars og það er aldrei hægt með fyrir fram aðgerðum að koma í veg fyrir slíkt, það verður að skoðast hverju sinni. Þetta vil ég að komi fram og átti að skilja mál mitt með þessum hætti. Ég held að því miður hafi oft verið fjallað um þessi mál með þeim hætti eins og undirboðs- og jöfnunartollar væru eitt og hið sama.
    Aðalatriðið er auðvitað, virðulegi forseti, að í framtíðinni vinni Íslendingar að því með öðrum frjálshuga þjóðum, frjálshyggjuþjóðum leyfi ég mér að segja, að koma í veg fyrir að ríkisstyrkir og undirboð séu stunduð í heiminum því að þegar frá því verður horfið þá munu Íslendingar á því græða.