Aukatekjur ríkissjóðs

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 12:19:06 (5915)


[12:19]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Hér er lögð til breyting á lögum sem sett voru á haustþingi 1991. Með þeim lögum voru í megindráttum lögfest þau ákvæði sem áður höfðu verið í reglugerð um aukatekjur ríkissjóðs hvað varðar gjöld fyrir veitingu atvinnuréttinda og tengdra réttinda.
    Það skal tekið fram að umboðsmaður Alþingis hafði oftsinnis gert athugasemdir sérstaklega um það að ekki væru skýr lagaákvæði heldur væri verið að taka gjöld umfram útlagðan kostnað ríkisins af viðkomandi aðilum án þess að lög væru nægilega skýr og lagaheimild þess vegna fyrir hendi.
    Gjaldtakan hefur eftir sem áður sætt mikilli gagnrýni, enda er hún frekar í hærri kantinum miðað við þann kostnað sem býr að baki leyfisveitingum af þessu tagi. Það verður að hafa í huga að hér er almennt um persónubundin réttindi einstaklinga að ræða og í ljósi þess er hér lagt til að sú breyting verði gerð að öll leyfi kosti 5.000 kr. Er þessi fjárhæð hugsuð til að mæta að nokkru leyti þeim kostnaði sem ríkissjóður hefur af útgáfu leyfanna. En þar fyrir utan er gert ráð fyrir að sérstök próftökugjöld verði tekin þegar um meiri kostnað og próf er að ræða. Um þetta getur sérstaklega í athugasemdum við 1. gr. frv.
    Það skal tekið fram að verði þetta frv. að lögum má gera ráð fyrir því að tekjur ríkisjóðs dragist saman um allt að 10 millj. kr.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa mörg fleiri orð um þetta frv. Þó ber að geta þess að í 2. gr. frv. er nýmæli sem er mjög mikilvægt, en það er um það að taka megi gjald, 300 kr., fyrir vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabókum. Það skal tekið fram að í gildandi lögum kostar veðbókarvottorð 800 kr. Slíkt veðbókarvottorð þarf að sækja á skrifstofu þinglýsingadómara, í þinglýsingabækur, en nú er lagt til að hægt sé fyrir þá sem eru beintengdir við tölvur þinglýsingabókhaldsins að afla upplýsinga með tölvufyrirspurn og kostar slík fyrirspurn þá 300 kr. samkvæmt þessu ákvæði verði það að lögum. Þetta ætti að geta haft það í för með sér að lögmenn, fasteignasalar og lánastofnanir og aðrir þeir sem mikið nota veðbókarvottorð munu geta verið beintengdir á tölvum og fengið upplýsingar með þeim hætti á því verði sem hér er tiltekið. Horfir þetta til mikilla framfara.
    Þetta mál þyrfti, virðulegi forseti, að sendast hv. efh.- og viðskn. og ég geri tillögu um það og jafnframt að málinu verði vísað til 2. umr.