Tryggingagjald

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 12:23:03 (5916)


[12:23]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér hér að mæla fyrir frv. til laga um breyting á lögum um tryggingagjald, með síðari breytingum, en þau lög eru að stofni til frá 1990 og eru nr. 113.
    Þessi breyting er ekki flókin. Hún fjallar um það að veitingarekstur og útleiga bifreiða falli undir neðri flokk tryggingagjaldsins en jafnframt er gert ráð fyrir að sá flokkur hækki til mótvægis úr 2,85% af launum í 2,95% af launum. Þetta er gert til þess að mæta þeim kostnaði sem verður við lækkun á tryggingagjaldi þess atvinnureksturs sem ég nefndi áður.
    Það skal tekið fram að lögum hafði verið breytt fyrir einu og hálfu ári síðan í þá veru að ætlunin var að lækka af veitingarekstrinum tryggingagjald. Af því varð ekki og var lögum breytt aftur fyrir síðustu jól, m.a. vegna þess að breytingar urðu þá á ætlan ríkisstjórnarinnar að setja virðisaukaskatt á flestalla þætti ferðaþjónustunnar. Af því varð ekki nema að litlu leyti og til að koma í veg fyrir fjárhagsskaða ríkissjóðs var ákveðið að falla frá þessari tilteknu lækkun, enda hafði þá virðisaukaskattur af matvælum verið lækkaður og kom það veitingarekstrinum eins og mörgum öðrum til góða.
    Í athugasemdum með þessu frv. er þessu lýst ítarlega þótt ekki sé í löngu máli. Ég vil taka það fram að gert er ráð fyrir að skatttekjur lækki um u.þ.b. 80 millj. kr. vegna lækkunar á tryggingagjaldi veitingareksturs og útleigu bifreiða, en hækki nánast um það sama þegar almenn hækkun verður á lægri flokknum.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að fara mörgum fleiri orðum um þetta stutta frv. Efnisatriðin eru hv. þm. kunn. Ég leyfi mér því í lok máls míns að leggja til að frv. verði sent hv. efh.- og viðskn. og síðan til 2. umr.