Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Albert Guðmundsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, andaðist í morgun í Landspítalanum í Reykjavík, sjötugur að aldri.
    Albert Guðmundsson var fæddur í Reykjavík 5. október 1923. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur gullsmiður Gíslason bónda í Berjanesi undir Eyjafjöllum Gíslasonar og Indíana Bjarnadóttir formanns á Norðfirði Jónssonar. Hann stundaði nám í Samvinnuskólanum í Reykjavík 1942--1944, lauk burtfararprófi þá um vorið, var síðan við verslunarnám við Skerry's College í Glasgow 1944--1946. Knattspyrnu stundaði hann frá ungum aldri og var árin 1947--1956 atvinnumaður í knattspyrnu erlendis og var þá búsettur í borgunum Glasgow, London, Nancy, Mílanó, París og Nice. Að því æviskeiði loknu fluttist hann heim til Reykjavíkur og var stórkaupmaður frá 1956--1989. Það ár var hann skipaður sendiherra í Frakklandi með aðsetri í París og gegndi því embætti til sjötugsaldurs á síðasta ári. Jafnframt var hann sendiherra í Portúgal, á Spáni og Grænhöfðaeyjum. Áður hafði hann verið ræðismaður Frakka á Íslandi 1962--1988.
    Albert Guðmundsson sinnti ýmsum félagsmálum. Hann var stofnandi Lions-umdæmisins á Íslandi 1957 og var ritari þess 1957--1958. Forseti Alliance Française var hann 1960--1967, formaður Íþróttafélags Reykjavíkur árum saman og formaður Knattspyrnusambands Íslands 1968--1973. Hann var stofnandi Tollvörugeymslunnar 1962 og stjórnarformaður hennar til 1983, í stjórn Verslunarráðs Íslands 1972--1986, varaformaður ráðsins 1974--1978 og stjórnarformaður Hafskips 1978--1983.
    Albert Guðmundsson var kjörinn til forustustarfa í borgarmálum og landsmálum. Hann var borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík 1970--1986, í borgarráði 1972--1983, forseti borgarstjórnar 1982--1983. Hann átti sæti í hafnarstjórn, stjórn Innkaupastofnunar Reykjavíkur og Strætisvagna Reykjavíkur, var formaður launamálanefndar og byggingarnefndar þjónustuíbúða fyrir aldraða. Á árunum 1980--1983 var hann í bankaráði Útvegsbanka Íslands og í flugráði. Í alþingiskosningunum 1974 var hann kjörinn alþingismaður Reykvíkinga af hálfu Sjálfstæðisflokksins og hélt því sæti til 1987. Það ár var hann kjörinn alþingismaður Reykvíkinga, var þá í framboði fyrir nýstofnaðan Borgaraflokk. Hann lét af þingmennsku 1989, þegar hann varð sendiherra í Frakklandi, hafði þá setið á 17 þingum alls. Hann var fjármálaráðherra 1983--1985 og iðnaðarráðherra 1985-- 1987. Hann átti sæti í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1973--1987 og í framkvæmdastjórn hans 1978--1987. Hann var stofnandi Borgaraflokksins og formaður hans 1987--1989.
    Árið 1980 var hann einn fjögurra í kjöri til embættis forseta Íslands.
    Albert Guðmundsson átti sér langan og frækilegan starfsferil. Hann var ósérhlífinn og athafnasamur alla ævi, fór ungur að vinna fyrir sér, skólavist hans var ekki löng, en nýttist honum vel. Hann var afburðamaður á knattspyrnuferli sínum, var í fremstu röð knattspyrnumanna í Evrópu. Hér heima sinnti hann af áhuga félagsmálum íþróttamanna og þjálfun. Heildverslun sína rak hann af hagsýni og kunnáttu. Þekktastur var hann af stjórnmálastörfum sínum. Hann naut þar mikils fylgis samborgara sinna, enda sinnti hann störfum sínum fyrir þá af dugnaði og umhyggjusemi. Hann var sjálfstæður í skoðunum og um hann stóð oft styrr á vettvangi stjórnmálanna. Hann var harður og sókndjarfur baráttumaður, en honum var eðlisbundinn drengskapur kappsams íþróttamanns. Með athöfnum í þágu borgar sinnar og lands markaði hann spor.
    Árið 1946 gekk hann að eiga eftirlifandi konu sína Brynhildi Jóhannsdóttur.
    Við andlát Alberts Guðmundssonar hverfur af sjónarsviðinu eftirminnilegur samferðamaður.
    Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að minnast Alberts Guðmundssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]