Reynslusveitarfélög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 14:46:11 (5926)


[14:46]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að hér hafi orðið nokkrar umræður um þetta mál og ýmsar spurningar vaknað vegna þess að, eins og ég sagði í minni framsöguræðu, þá er þetta að ýmsu leyti óvenjuleg lagasetning sem skýrist af eðli málsins. Það hefur töluvert verið talað um opnar heimildir til ráðherra og vissulega er það svo en þó eru þarna sett ákveðin takmörk til hvers þessar heimildir megi ná, t.d. varðandi 2. gr. frv.
    Ég vil líka geta þess að þar sem hefur verið farið út í svona reynslusveitarfélög á Norðurlöndum hafa alls staðar verið opnar heimildir til ráðherra og það hefur frekar verið tregða hjá ráðherrum að beita þeim en hitt. Ég held þess vegna að málið sé þó þannig vaxið að ekki ætti að vera nein hætta á ferðum að heimildirnar væru með einum eða öðrum hætti misnotaðar, enda felast ákveðnar takmarkanir í þessu.
    Það kom fram í máli a.m.k. tveggja ræðumanna, hv. 2. þm. Vesturl. og hv. 2. þm. Austurl., að frv. eins og það hér er lagt fram sé með nokkum öðrum hætti en gert var ráð fyrir í upphafi. M.a. er tilgreint að í skýrslu sveitarfélaganefndar hafi verið gert ráð fyrir að drög að samþykktum milli ríkis og sveitarfélaga lægju fyrir. Það er vissulega rétt að það var gert ráð fyrir því í skýrslu sveitarfélaganefndar en á því er sú skýring að ekki er búið að velja þessi sveitarfélög. Heimildin frá Alþingi er eingöngu fyrir samningi við fimm reynslusveitarfélög en eins og fram hefur komið sækja mun fleiri um að verða reynslusveitarfélög. Það er lagt til við Alþingi að fjölga þeim í 12 og þess vegna hefur einfaldlega ekki verið hægt að velja þessi reynslusveitarfélög og það þarf auðvitað að liggja fyrir áður en verður farið að semja við reynslusveitarfélögin. Það er skýringin á því að drög að samþykktum liggja ekki fyrir.
    Hv. þm. Jón Kristjánsson nefndi einnig hvort það væru einhver áform um að gera öll fjölmennustu sveitarfélögin að tilraunasveitarfélögum. Það eru alls engin áform um það. Það liggur fyrir hvaða sveitarfélög hafa sótt um en endanlegt val sem verður í höndum verkefnisstjórnar liggur ekki fyrir.
    Ég vil einnig taka fram af því að mér fannst koma fram í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að því hefði verið lofað í kosningunum 20. nóv. að öll sveitarfélög gætu gengið að því sem vísu að verða

reynslusveitarfélög að það er alls ekki rétt. Hitt er annað mál að þáltill. sem samþykkt var á Alþingi kvað á um það að sveitarfélög sem sækja um verkefni í tengslum við sameiningu hafi forgang, einkum þegar sveitarfélög á stóru svæði sameinast. En að því hafi verið lofað gagnvart öllum sveitarfélögum er ekki rétt. Efni þessarar tillögu var auðvitað kynnt, að hún kvæði á um það að sveitarfélög sem sækja um verkefni í tengslum við sameiningu hafi forgang til þess að gerast reynslusveitarfélög. Því er nokkur vandi hér á höndum vegna þess að það eru mun fleiri sveitarfélög sem hafa sameinast heldur en fimm sem gert var ráð fyrir að gætu orðið reynslusveitarfélög í þessari tillögu.
    Það hefur verið nokkuð rætt hér um þá óháðu aðila sem gert er samkvæmt ákvæði þessa frv. að taka út þessa tilraun. Ég tek taka undir það með hv. þm. Jóni Kristjánssyni að hér er um mjög mikilvægt ákvæði að ræða og mjög mikilvægt að vel takist til í þeim efnum. En hvaða óháðu aðilar það eru liggur ekki fyrir enn þá. Eins og kemur fram í ákvæðum frv. þá getur þetta verið einn aðili eða fleiri. Það geta ýmsir komið til greina í því efni eins og Háskóli Íslands, Byggðastofnun, Þjóðhagsstofnun eða allir þessir aðilar saman, en um það liggur ekkert fyrir. En ég vil leggja áherslu á mikilvægi þess að það verði framkvæmd vönduð úttekt á þessari tilraun.
    Það er alveg rétt sem fram hefur komið hér t.d. hjá 2. þm. Vesturl., að inntakið í þessu frv. er það að auka sjálfsforræði sveitarfélaga, skapa grundvöll og forsendur fyrir viðamiklum verkefnatilflutningi til sveitafélaga á grundvelli þess hvernig þessi tilraun tekst. Einnig að prófa nýtt stjórnsýslufyrirkomulag t.d. varðandi fjármögnun og fleiri þætti. Það er auðvitað grunnurinn að þessu að fara í þetta þannig að hægt sé að meta reynsluna af því og sjá hvernig til tekst og í hve viðamiklum mæli á að fara út í þetta verkefni.
    Hv. þm. Jóhann Ársælsson varpaði fram þeirri spurningu hvort það væri hætta á því að hér væri verið að víkja frá jafnræðisreglu og talaði m.a. um opnar heimildir og opnar reglur. Ég held að það sé alveg ljóst að það verði að árétta það að þessar heimildir hafa sín takmörk í ákvæðum í frv. Tilraunirnar mega ekki hafa í för með sér skerðingu á réttindum íbúanna eða auknar fjárhagslegar byrðar fyrir þá. Sveitarfélögin geta ekki fengið undanþágur frá lögbundnum verkefnum sínum og inntak og gæði þjónustunnar má ekki skerða. Réttaröryggi íbúanna má ekki skerða og ekki er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum sem kveða á um grundvallarstjórn sveitarfélaga, svo dæmi sé nefnt. Meginatriði í ákvæðum þessa frv. er að því er ætlað að gera sveitarfélögum kleift að taka í tilraunaskyni að sér ný þjónustuverkefni þar sem talið er að þau geti veitt þjónustuna á hagkvæmari og betri hátt en áður. Þá á líka að gera tilraunir með nýtt og hagkvæmara fjármögnunarform og síðan að þeim sé veitt tækifæri til að skipuleggja á hvern hátt þau veita þjónustuna. Ég tel að þetta verkefni eigi ekki að hafa í för með sér fjárhagslega mismunun milli reynslusveitarfélaga og annrra sveitarfélaga.
    Varðandi Jöfnunarsjóðinn sem hér er nefndur þá er opnað fyrir það í ákvæðum frv. að skoða það að úthlutunarreglum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði breytt til þessara reynslusveitarfélaga í tilraunaskyni. Það er ekki verið að tala um að þau eigi að fá aukin framlög umfram aðra heldur geta þau verið í öðru formi til þessara sveitarfélaga.
    Varðandi ákveðna þætti eins og samgöngumál sem hér var spurt um þá kemur það fram í greinargerð með frv. að það áttu sér stað viðræður við samgrn. um ýmsa þætti í samgöngumálum. Niðurstaðan af þeim viðræðum varð sú að í frv. til nýrra vegalaga, sem nú er til meðferðar á Alþingi, er gert ráð fyrir víðtækum heimildum vegamálastjóra til að gera samning við einstaklinga, fyrirtæki, sveitarstjórnir, stofnanir og samtök þessara aðila um vegahald. Það var mat samgrn. að þær heimildir væru fullnægjandi fyrir sveitarfélög sem taka vilja að sér verkefni á sviði vegamála og því sé ekki ástæða til sérstakrar heimildar þar að lútandi í þessu frv.
    Sama niðurstaða varð varðandi menntmrn. Það var gert ráð fyrir því í skýrslu sveitarfélaganefndar að framhaldsskólar gætu t.d. verið hluti af þessu tilraunaverkefni en niðurstaða þess ráðuneytis varð sú að ekki væri ráðlegt á þessu stigi með hliðsjón af því að fyrir dyrum standi að sveitarfélögin yfirtaki rekstur grunnskóla, sem ráðuneytið taldi að væri ærið verkefni fyrir, auk þess sem ráðuneytið taldi rétt að fá reynslu á þær breytingar sem frv. til nýrra framhaldsskólalaga felur í sér áður en gerðar yrðu frekari tilraunir með rekstrarform framhaldsskólanna. Þannig að hér er um að ræða breytingu frá því sem sveitarfélaganefndin lagði til.
    Varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð, sem hér hefur verið minnst á, þá er fyrst og fremst um það að ræða að verið er að skoða ákvæði sem lúta að því að bæta þjónustu við atvinnulausa en ekki hefur verið rætt neitt um það að tilraunasveitarfélög fái eitthvert aukið svigrúm varðandi ráðstöfun á því 1.200 millj. kr. framlagi sem nú er í Atvinnuleysistryggingasjóði til atvinnuskapandi verkefna. Það hefur ekki verið rætt um þann þáttinn.
    Varðandi það hvort tilraunasveitarfélög geti ráðið sjálft sinni skattlagningu, t.d. útsvarsprósentu, þá fela ákvæði frv. það í sér að það má ekki auka á fjárhagslegar byrðar íbúanna þannig að það er ekki hægt að fara upp fyrir það þak sem er á útsvarinu. Það væri vel athugandi hvort hina hliðina varðandi lágmarksútsvar mætti ekki skoða en þá yrði að skoða það í tengslum við Jöfnunarsjóð og framlögin úr honum hvernig það kemur heim og saman. Það er því út af fyrir sig ekki útilokað að mínu viti.
    Varðandi vangaveltur hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur um verkefnastjórnina og hlutverk hennar, sem er að velja reynslusveitarfélög, og hvort viðkomandi sveitarstjórnarmenn sem þar sitja væru hæfir til að fjalla um umsóknirnar þegar um væri að ræða að þeirra sveitarfélög væru meðal umsækjenda, þá er mjög passað upp á það. Þegar slíkt kemur upp eru kallaðir inn varamenn þannig að það á að gæta fyllsta hlutleysis í hvívetna í þessu efni.
    Margrét Frímannsdóttir spurði einnig um 19. gr. þar sem kemur fram að það sé heimilt að gera tilraun með nýtt fyrirkomulag á greiðslu kostnaðar og er viðkomandi ráðherra í því sambandi heimilt, að fengnu samþykki fjmrh. að víkja frá ákvæðum laga sem mæla fyrir um það efni. Hér er að mínu viti eingöngu átt við það að hægt sé að breyta fjármögnunarforminu sem slíku en ekki auka fjármagn til viðkomandi tilraunasveitarfélaga umfram það sem fjárlög gera ráð fyrir, það sé eingöngu hægt að breyta um fjármögnunarform t.d. að koma á svokallaðri rammafjármögnun. Auðvitað verður þetta allt að vera innan ramma fjárlaga.
    Ég geri mér vissulega grein fyrir því, virðulegur forseti, að það hefði verið æskilegt að þetta frv. væri fyrr á ferðinni og ég get vel skilið það eins og fram hefur komið að þingmenn sem fá þetta mál til umfjöllunar í félmn. vilji fá tíma til að skoða það. Þetta er náttúrlega nýjung í þessu frv. sem þarf að skoða vandlega. En ég treysti því og veit að félmn. mun kappkosta eins og hægt er að afgreiða þetta frv. Það er ljóst að sveitarfélögin bíða mörg hver eftir því að frv. þetta verði að lögum og í því eru ýmis ákvæði sem ekki geta beðið. T.d. þarf Alþingi að taka af skarið og ákveða það hvað tilraunasveitarfélögin verði mörg og ýmis ákvæði í þessu frv. er nauðsynlegt að lögfesta. Eins og fram kom líka í minni framsögu þá er það a.m.k. mjög líklegt að þessi lagasetning taki einhverjum breytingum á þessu tilraunatímabili eftir því sem tilefni gefst til hverju sinni.
    Það var vissulega hugleitt af þeim sem sömdu þetta frv. hvort það ætti að hafa málið þannig að hverja einustu samþykkt sem gerð yrði við sveitarfélögin ætti að bera formlega undir þingið. Menn töldu það mjög þungt í vöfum. Ef ég man rétt þá var reynt fyrst, ég held að það hafi verið í Danmörku frekar en í Noregi, að gera það þannig og það reyndist mjög þungt og erfitt í vöfum og heimildirnar voru gerðar miklu víðtækari og opnari og reynslan varð sú og niðurstaðan að það hefði gefist mjög vel. En ég vænti þess að ég hafi svarað flestu því sem fram kom í spurningum frá hv. þm.