Reynslusveitarfélög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 15:07:02 (5930)


[15:07]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin. Hún svaraði öllum spurningum sem til hennar var beint og hennar svör voru mjög skýr. En það kom fram einmitt í svörum hennar hvað frv. er óákveðið, hvað það er opið og óskýrt.
    Mig langar til að fylgja aðeins eftir varðandi þær fyrirspurnir sem ég var með um sjálfstæði og ábyrgð sveitarfélaga á sínum eigin málum og varðandi það að sveitarfélög ráði sjálf sinni útsvarpsprósentu. Það er ekki ákveðið t.d. hvort sveitarfélögin mega ráða sinni eigin útsvarsprósentu. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra sem mér fannst vera óásættanlegt varðandi þær fjárupphæðir sem sveitarfélögin leggja til Atvinnuleysistryggingasjóðs til sérstakra atvinnuskapandi verkefna. Segjum t.d. sveitarfélag í dag, sem verður tilraunasveitarfélag og leggur 12 millj. til Atvinnuleysistryggingasjóðs í þessi sérstöku verkefni fær síðan aðeins 2 millj. úr þessum sjóði til atvinnuskapandi verkefna og það er bullandi atvinnuleysi í þessu sveitarfélagi. Á áfram að miðstýra þessu úr Reykjavík? Á þetta ekki að vera á ábyrgð sveitarfélagsins og má það ekki sjálft nýta þessar 12 millj. sem er ætlast til að fari í þetta ákveðna verkefni?