Reynslusveitarfélög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 15:13:19 (5934)


[15:13]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegu forseti. Út af fyrir sig er þetta sjónarmið sem kom fram hjá hv. þm. en ég legg mest upp úr því að samningar takist við sveitarfélögin, það sé þá vilji sveitarfélaganna sem ráði mestu um það. Það getur vel verið að sum af þessum sveitarfélögum, tilraunasveitarfélögin og reynslusveitarfélögin, hafi ekki og vilji ekki eða telji sig ekki hafa getu til þess að taka yfir til reynslu ýmsa af þeim málaflokkum sem hér er gert ráð fyrir. Þá finnst mér ekki eðlilegt að vera að þröngva því upp á þau með þessum hætti. En auðvitað er það verkefni stjórnarinnar að skoða það að reyna að fá sem mesta breidd í þetta verkefni og skoða það að málaflokkarnir séu þar sem því verður við komið í sem flestum sveitarfélögum. En ég er fyrst og fremst að tala um þessi stærri verkefni sem ég nefndi hér áðan, sjúkrahús og fleiri þætti sem viðkomandi sveitarfélög kæra sig kannski ekkert um að fá. En ég er alveg sammála þingmanninum um að það verður auðvitað að gæta þess að það komi fram í þessu ákveðinn samanburður milli minni og stærri sveitarfélaganna eins og kostur er.