Endurskoðun laga um skipan opinberra framkvæmda

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 15:15:20 (5935)



[15:15]
     Frsm. fjárln. (Sigbjörn Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Eg mæli fyrir áliti fjárln. um till. til þál. um endurskoðun laga um skipan opinberra framkvæmda.
    Nefndin hefur lokið umfjöllun um tillöguna sem lýtur að endurskoðun laga um skipan opinberra framkvæmda. Að lokinni athugun nefndarinnar á tillögunni og að fengnum skýringum fjmrn. og Framkvæmdasýslu ríkisins mælir nefndin með því að tillagan verði samþykkt með breytingum sem nefndin leggur til á þskj. 839. Brtt. nefndarinnar er um að tillgr. orðist þannig:
    ,,Alþingi ályktar að fela fjmrh. að skipa nefnd til að endurskoða lög nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda. Við endurskoðun laganna verði lögð áhersla á að styrkja framkvæmd laganna með breyttri skipan við undirbúning, mat verktilboða og gerð langtímaáætlana um opinberar framkvæmdir, bæði nýbyggingar og viðhald.``
    Undir nefndarálitið rita auk þess sem hér mælir Sturla Böðvarsson, Hermann Níelsson, Árni Johnsen, Árni Mathiesen, Guðmundur Bjarnason, Guðrún Helgadóttir, Margrét Frímannsdóttir, Jón Kristjánsson, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Guðjón A. Kristjánsson.