Endurskoðun laga um skipan opinberra framkvæmda

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 15:16:56 (5936)


[15:16]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli frsm. með nefndaráliti fjárln., hv. þm. Sigbjarnar Gunnarssonar, mælir fjárln. með samþykkt þessarar þáltill. með þeim breytingum sem flutt er á þskj. 839. Ég ætla ekki að lengja mikið þessa umræðu, virðulegi forseti. Mig langar aðeins til þess að árétta stuðning minn við tillöguna eins og hún liggur nú fyrir.
    Í máli fulltrúa frá Framkvæmdasýslu ríkisins og fjmrn. sem komu til fundar við nefndina kom m.a.

fram að þeir teldu að e.t.v. væri fyrst og fremst um það að ræða að skoða nánar framkvæmd laganna um skipan opinberra framkvæmda heldur en það væri nauðsynlegt að endurskoða lögin frá grunni. Það væri ýmislegt sem betur mætti fara við undirbúning og skipan, við verktilboð og mat á tilboðum, gerð langtímaáætlana o.fl. o.fl. en lögin kvæðu e.t.v. á um þetta flest. Það væri þá fyrst og fremst um það að ræða að skoða nánar hvernig þau væru framkvæmd.
    Fjárln. varð hins vegar sammála um það að eðlilegt væri að endurskoða lögin í heild sinni og taka þá sérstaklega tillit til þátta eins og það hvort ástæða væri til lagabreytinga. Það mundi koma í ljós við endurskoðunina þegar farið væri yfir lögin og þau metin og nefndarálitið gæti e.t.v. borið það með sér að það væri fremur framkvæmdaratriði sem þyrfti að taka á heldur en lagabreytingar en það kemur í ljós væntum við sem að þessu nefndaráliti stöndum.
    En ég vildi aðeins nota tækifærið og undirstrika að ég tel mikilvægt að opinberir aðilar vandi vinnu sína við verkútboð og mat á þeim tilboðum sem síðan koma í útboðin. Við höfum fyrir okkur allt of mörg dæmi um það að ekki er nægilega vel að verki staðið og þegar hið opinbera hrósar happi yfir því að fá tilboð í verk, gjarnan langt undir kostnaðaráætlun, þá er ekki allt fengið með því einu. Þegar upp er staðið eru allt of mörg dæmi þess að verktakar sem gera tilboð í verk undir kostnaðaráætlun eigi erfitt með að standa við tilboð sín ef þeir yfirleitt geta það. Í sumum tilfellum hafa verktakar þurft að hverfa frá framkvæmdum og kostnaður hins opinbera eða verkkaupans þegar upp er staðið allt annar og meiri en til stóð eða álitið var í upphafi. Þetta held ég að þurfi að skoða mjög gaumgæfilega og opinberir aðilar að setja sér e.t.v. ákveðnar reglur í því sambandi að það sé ekki sjálfgefið að alltaf sé tekið lægsta tilboði í verk.
    Við þingmenn Norðurl. e. höfum fyrir okkur nýlegt dæmi um tilboð í vegarkafla í okkar kjördæmi á síðasta ári. Það tilboð var ekki nema 56 eða 58% af kostnaðaráætlun og sjálfsagt hefur verktakinn fengið greidd þessi 56 eða 58%. Verkið kostar auðvitað miklu meira og það sem á vantaði er núna ógreitt í skuldum hjá ýmsum undirverktökum og aðilum sem önnuðust þjónustu við þennan aðalverktaka. Þetta er auðvitað ólíðanlegt og það vekur þá spurningu hjá mér hvort ekki komi til greina að með einhverjum hætti sé gerð sú krafa til verktakans að hann setji tryggingar gagnvart sínum undirverktökum. Auðvitað ættu undirverktakarnir að fara fram á það sjálfir að tryggja sig og sínar greiðslur en því miður er það oft svo og ekki síst á tímum þegar atvinnuleysi er mikið og lítið um verk að þá grípa menn gæsina þegar hún gefst jafnvel þó hún sé ekki mjög girnileg. Undirverktakarnir leyfa sér það að ganga til samninga við verktakana þó að þeir hafi ekki fulla tryggingu fyrir greiðslu á sínum kostnaði við verkið. En ég held að það væri því eitt af því sem þyrfti að skoða í þessu nefndarstarfi, hvernig á að standa að verktilboðum og því er það undirstrikað í brtt. okkar að við endurskoðun laganna verði horft til þess hvernig mat opinberir aðilar leggja á verktilboðin svo að við stöndum ekki aftur og aftur uppi með þessa sorgarsögu sem við því miður höfum allt of mörg dæmi um, að verktakinn hleypur frá verkinu án þess að hafa gert full skil við sína undirverktaka og oft og tíðum ekki einu sinni við opinbera aðila með ýmis gjöld og kostnað sem þeim ber að greiða og því ljóst að verkin eru í raun miklu dýrari en tilboðið á sínum tíma hljóðaði upp á.
    Síðan að ógleymdu þessu öllu saman eru gjaldþrotin sem dynja yfir í kjölfar slíkra vinnubragða og geta ekki verið til annars stórtjóns fyrir alla aðila og leiða til þess að ríkið tapar stórfé og einstaklingarnir sem fyrir verða tapa sínu fé og oft og tíðum sínum eignum og sitja uppi með stóran óbættan skaða.
    Ég vildi aðeins, virðulegur forseti, undirstrika þetta og árétta stuðning minn við tillöguna en koma á framfæri þessum athugasemdum mínum að ég held að það sé ýmislegt sem þurfi að skoða við þessa endurskoðun laganna og jafnvel þó að endurskoðun sú leiddi af sér að ekki þyrfti að gera miklar breytingar á lagatextanum sjálfum, þá sé nauðsynlegt að fara mjög ofan í saumana á því hvernig staðið er að þessum undirbúningi og málatilbúnaði öllum.