Hópuppsagnir

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 16:14:07 (5945)


[16:14]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. 5. þm. Vestf. saknar þess að ríkisstjórnin hafi ekkert gert til þess að draga úr atvinnuleysi. Á ég að trúa því að hv. þm. Kristinn Gunnarsson telji að 1.500 millj. kr. til aukinna framkvæmda í vegamálum á síðasta ári og 900 millj. kr. til aukinna framkvæmda í vegamálum á þessu ári sé ekki til þess að auka atvinnu í landinu? Og milljarður kr. til ýmissa verkefna, sem samþykktur var á síðasta ári en ekki var hægt að nota þá og yfirfærður var á þetta ár, er það ekki til þess að auka atvinnu í landinu? Og afnám aðstöðugjalds á fyrirtæki, er það ekki til þess að auka atvinnu í landinu? Lækkun tekjuskatts á fyrirtæki, er það ekki til þess að auka atvinnu í landinu? Og lækkun vaxta, sem kom fram á síðasta ári og vextirnir halda áfram að lækka í kjölfarið á því samkvæmt nýjustu fréttum í dag, er það ekki til þess að auka atvinnu í landinu? Og er frv. um á milli 300 og 500 millj. kr. til Vestfjarða, í kjördæmi hv. þm., ekki til þess að tryggja og auka atvinnu í landinu?