Hópuppsagnir

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 16:15:22 (5946)


[16:15]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það hvarfli ekki að nokkrum manni að mæla á móti því sem vel er gert og draga fram og halda til haga því sem stjórnvöld á hverjum tíma gera til þess að draga úr atvinnuleysi. Það er auðvitað ekki svo að núverandi stjórnvöld hafi ekkert gert, enda hef ég ekki haldið því fram. Hins vegar skora ég á hv. þm. Árna M. Mathiesen að kynna sér tölur um fjölda atvinnulausra á Íslandi nú um þessar mundir og spyr hann: Finnst honum að það sem hann telur að hafi verið gert sé nægjanlegt og ekki þurfi meira að gera? Að ástandið sé ásættanlegt eins og það er? Ég get svarað því fyrir mitt leyti. Það er ekki ásættanlegt ástand að hafa þúsundir manna atvinnulausar hér á landi. Og málflutningur af þessum toga sem hv. þm. Árni Mathiesen hafði uppi er einungis fluttur í þeim tilgangi að fá fólk til að sætta sig við atvinnuleysið. Það er óásættanleg niðurstaða. Og það er málflutningur sem ég get ekki tekið undir.