Reynslusveitarfélög

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 16:34:56 (5951)


[16:34]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um reynslusveitarfélag og vil ég segja nokkur orð í tilefni þess. Ég vil í upphafi lýsa ánægju minni með það að frv. skuli vera komið fram. Ég tel að það sé hið merkasta og mikilvægasta frv.
    Í stefnu og starfsáætlun þeirrar ríkisstjórnarinnar sem nú er starfandi kemur fram það markmið að sveitarfélögin skuli efld á kjörtímabilinu. Eins og hv. þm. þekkja og vita þá hefur með margvíslegum hætti verið unnið að því að efla sveitarfélögin. Er þar m.a. um að ræða að það hefur verið reynt að stuðla að sameiningu sveitarfélaga en að mínu mati er ein meginforsenda þess að hægt sé að efla sveitarstjórnarstigið sú að takast megi að sameina sveitarfélögin og stækka þau.
    Það frv. sem hér er til umfjöllunar er hluti af því viðfangsefni og því verkefni sem stjórnarflokkarnir hafa sett sér að efla sveitarstjórnarstigið. Þegar lagðar eru fram hugmyndir og tillögur um það að efla sveitarfélögin er afar mikilvægt og nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hvaða verkefni megi færa til þeirra. Sem liður í því að gera verulega uppstokkun og endurskipulagningu á sveitarstjórnarstiginu er frv. til laga um reynslusveitarfélög.
    Hugmyndin um reynslusveitarfélög er fengin frá Norðurlöndunum. En ég tel að þetta sé mjög mikilvæg tilraun sem hér er verið að hleypa af stokkunum með því að flytja þetta frv. Reynslusveitarfélög er hugtak sem menn hafa kannski ekki til fulls áttað sig á hvað væri átt við í rauninni. Ég tel að það hefði kannski þurft að fara fram ítarlegri og meiri umfjöllun, ekki bara meðal sveitarstjórnarmanna heldur sem víðast um þetta hugtak, um þá hugmyndafræði sem liggur á bak við hugmyndina um stofnun reynslusveitarfélaga.
    Nú hefur það komið í ljós að mjög margar sveitarstjórnir hafa óskað eftir því að þeirra sveitarfélög verði reynslusveitarfélög og það hefur verið viss eftirvænting meðal sveitarstjórnarmanna og töluverðar væntingar sem hafa fylgt þeirri hugmynd að setja á stofn þessi svokölluðu reynslusveitarfélög.
    Ég hef svona aðeins haft nokkrar efasemdir um að það væri eðlilegt í fyrsta áfanga að mjög mörg sveitarfélög yrðu reynslusveitarfélög. Ég tel að það þurfi að skoða það mjög vandlega. Frv. gerir ráð fyrir því að heimilt sé að setja af stað 12 reynslusveitarfélög og í greinargerð með frv. eru hugmyndir um hvaða sveitarfélög verði fyrst á ferðinni.
    Tíminn verður auðvitað að leiða í ljós hvort þessi heimild verður nýtt en ég tel afar mikilvægt að þetta frv. nái fram að ganga þannig að það verði hægt að hleypa af stað þessari tilraun þannig að það megi byrja sem allra fyrst á að færa verkefni til reynslusveitarfélaga. Þá legg ég mjög ríka áherslu á að sveitarstjórnunum verði gefin verulega laus taumurinn þannig að bæði eigi þau möguleika á að taka til sín verkefni og stýra þeim að eigin vilja án afskipta ríkisvaldsins og sveitarfélögunum gefist færi á því að afla tekna

til þess að sinna þeim verkefnum sem reynslusveitarfélag fær að fara með.
    Virðulegur forseti. Ég held að það þurfi ekki að lengja þessa umræðu. Frv. er skýrt og ég tel ekki óeðlilegt að það séu gefnar nokkuð opnar heimildir í slíku frv. og frv. til laga um reynslusveitarfélög. Ég treysti sveitarstjórnum mjög vel til að fara með þær rúmu heimildir sem frv. gefur í þessum efnum og treysti ráðherra til þess að stýra þeirri tilfærslu sem felst í frv. á verkefnum til sveitarfélaganna sem eiga að verða reynslusveitarfélög.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég lýsi stuðningi við það og fagna því að það skuli vera komið fram.