Lyfjaverslun ríkisins

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 17:04:59 (5957)


[17:04]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Hv. frsm. nál. efh.- og viðskn. gat þess hverjir hefðu skrifað undir álitið með fyrirvara og gat þess einnig að Kristín Ástgeirsdóttir hefði ritað bréf til formanns nefndarinnar þar sem hún dró stuðning sinn til baka við frv. Vil ég, með leyfi forseta, lesa bréf Kristínar hér. Það er dags. 6. apríl 1994 og hljóðar svo:
    ,,Hr. Halldór Ásgrímsson, formaður efh.- og viðskn.
    Fyrir nokkrum vikum afgreiddi efh.- og viðskn. frá sér frv. til laga um breytingar á lögum um Lyfjaverslun ríkisins. Með afgreiðslu málsins ákvað undirrituð, eftir mikla og erfiða umhugsun, að standa að sameiginlegri afgreiðslu nefndarinnar með fyrirvara þó. Fyrirvarinn var mjög stór af minni hálfu en ég taldi að með þeirri brtt. sem nefndin leggur fram væri verið að milda málið.
    Eftir að málið var afgreitt frá nefndinni hefur ýmislegt gerst sem veldur því að ég hef ákveðið að draga stuðning minn við málið til baka. Mun ég gera grein fyrir þeirri afstöðu minni við 2. og 3. umr. gefist mér kostur á því en ég verð utan þings næstu tvær vikur.
    Í fyrsta lagi hef ég komist að þeirri niðurstöðu að lítið hald sé í þeirri brtt. sem við komum okkur saman um þar sem auðvelt verður að koma með beiðni um frekari sölu hlutabréfa t.d. í gegnum 6. gr. frv. til fjárlaga sem þýðir að afar erfitt verður að koma í veg fyrir hana.
    Í öðru lagi hafa ,,einkavæðingarmálin`` skýrst enn frekar í mínum huga við umfjöllun landbn. að undanförnu um breytingar á lögum um Áburðarverksmiðju ríkisins sem er mál af sama toga og frv. það sem hér um ræðir.
    Þau stéttarfélög sem í hlut eiga standa í málaferlum vegna þeirra breytinga sem áttu sér stað hjá Síldarverkmiðju ríkisins (þ.e. BSRB) og halda því fram að frumvörpin eins og þau líta nú út feli í sér stjórnarskrárbrot. Í stað þess að afgreiða fleiri mál með sama hætti og SR væri auðvitað réttast að bíða niðurstöðu dómstóla þannig að hægt væri í framhaldinu að tryggja réttindi starfsmanna. Auk þess standa yfir viðræður milli ríkisins og BSRB um samskipti þessara aðila, þar með talið um einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar. Meðan þær viðræður standa yfir er afar óeðlilegt að halda áfram breytingum á ríkisstofnunum sem kunna að fela í sér fækkun starfa og það að starfsfólk neyðist til að ganga í önnur stéttarfélög.
    Í þriðja lagi sýna þær upplýsingar sem borist hafa af breytingum hjá Sementsverksmiðju ríkisins og SR-mjöli að þær fela í sér fækkun starfa á erfiðum atvinnuleysistímum. Um 30 manns hefur verið sagt upp störfum hjá Sementsverksmiðju ríkisins og þar spilar samdráttur að sjálfsögðu einnig inn í.
    Í fjórða og síðasta lagi ber að nefna það sem skiptir mestu máli. Með þeirri sölu á eignum ríkisins sem þegar hefur átt sér stað er verið að afhenda einstökum aðilum eignir almennings á silfurfati. Þannig hefur verið staðið að málum að ekki verður við unað. Reynslan frá SR-mjöli ætti að kenna okkur að nú beri að staldra við og stöðva þessa tilfærslu á eignum og fjármagni til stóreignamanna.
    Eftir sem áður mæla ýmis rök með breytingum á Lyfjaverslun ríkisins en eins og málum er nú háttað tel ég réttast að stöðva þetta mál, bíða þess að niðurstöður dómstóla liggi fyrir varðandi starfsmannamál og að viðræðum ljúki milli BSRB og ríkisins. Því sé ég mér ekki annað fært en draga til baka stuðning minn við breytingar á lögum um Lyfjaverslun ríkisins.

    Virðingarfyllst, Kristín Ástgeirsdóttir.``
    Frú forseti. Það er sjálfsagt ef bréfið hefur ekki borist í hendur frsm. nefndarinnar að hann fái afrit af því. Ég gerði mér ekki ljóst að formaður nefndarinnar væri ekki frsm. Það eru bara mín mistök að sjá það ekki en hann getur að sjálfsögðu fengið afrit af bréfinu. En í því kemur fram að Kristín hefur dregið stuðning sinn til baka og færir hún rök fyrir því.
    Ég vil aðeins hnykkja á þessu máli. Ég tel að það sé mjög hæpið, svo ekki sé sterkara að orði kveðið, að breyta Lyfjaverslun ríkisins í hlutafélag þegar ekki er orðið ljóst hvernig starfsmannamálin munu fara. Ég tel að það sé ábyrgðarhluti að setja ákvæði í lög eins og þau sem eru í frv. Það er að vísu ekki í fyrsta skipti sem það er gert. 3. gr. frv. hljómar svo, með leyfi forseta:
    ,,Fastráðnir starfsmenn Lyfjaverslunar ríkisins skulu hafa rétt til að starfa hjá nýja hlutafélaginu við stofnun þess og skal þeim boðin sambærileg staða hjá félaginu og þeir áður gegndu hjá Lyfjaverslun ríkisins. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.``
    Svipað ákvæði hefur staðið í öðrum lögum sem hafa verið samþykkt en nú eru í gangi málaferli og tel ég alls ekki hægt að samþykkja mál eins og þetta þegar ekki er ljóst hvort þetta stenst stjórnarskrá. Ég tel ekki Alþingi sæmandi að samþykkja lög með ákvæði eins og þessu þegar ekki er ljóst hvort það stenst.
    Auðvitað væri miklu eðlilegra að það væri tekið almennt á þessum málum í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ef það er meiningin hjá löggjafanum að breyta þessu ákvæði þannig að fólk hafi ekki þann rétt sem þar er gert ráð fyrir, þá ætti að breyta ákvæðinu þar en vera ekki að koma með þetta í hvert einasta skipti og skapa þá réttaróvissu sem greinilega er fyrir hendi.
    Mig langar, frú forseti, að lesa hérna örlítið álit frá Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Starfsmannafélagi ríkisstofnana til efh.- og viðskn. að því er varðaði einmitt þetta atriði. Tel ég eðlilegt að geta þess hérna þar sem það eru rökin sem Kristín leggur áherslu á í sínu bréfi að skipti verulegu máli. Með leyfi forseta ætla ég að lesa hluta af bréfi sem BHMR ritar 7. jan. 1994 til efh.- og viðskn. en þar segir m.a.:
    ,,Gert er ráð fyrir að Lyfjaverslun ríkisins verði gerð að hlutafélagi. Rekstrarform sem eigendur velja eiga að öðru jöfnu ekki að varða stéttarfélög nema að svo miklu leyti sem formbreytingin hefur áhrif á samningsrétt stéttarfélaga og réttindi einstakra starfsmanna. Í því tilviki sem hér um ræðir hefur áform um breytingu einmitt áhrif á hvort tveggja, samningsrétt stéttarfélaga og réttindi starfsmanna.
    Samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954 er starfsmönnum ríkisins annars vegar heitið biðlaunum ef störf þeirra eru lögð niður og hins vegar heitið forgangi að fyrra starfi ef til þess er stofnað á ný innan fimm ára. Biðlaun eru bætur vegna missis réttinda og miðast bótafjárhæðin við sex mánaða föst laun fyrir þá sem hafa skemmri en 15 ára þjónustutíma hjá ríkinu en þeir sem starfað hafa lengur fá sem svarar 12 mánaðalaunum.
    Samkvæmt 1. gr. frv. tekur hlutafélagið við öllum eignum, skuldum og rekstri Lyfjaverslunar ríkisins að undanskildum þeim skuldbindingum sem tengjast starfsmönnum og nefndri 14. gr. laga. Ekki verður séð hvernig ríkið getur losað Lyfjaverslun ríkisins undan þeim skuldbindingum öðruvísi en ríkið taki beina ábyrgð á sig gagnvart þessum réttindum starfsmanna.
    BHMR skorar á hv. nefnd að láta koma skýrt fram í frv. að Alþingi telur að starfsmennirnir eigi lögvarðan og skilyrðislausan rétt á biðlaunum og öðru efni 14. gr. laga nr. 38/1954, ef frv. verður að lögum.
    Því er haldið fram við starfsmenn að þeir geti ekki átt áframhaldandi aðild að fagstéttarfélögum sínum, þ.e. fagstéttarfélögum innan BHMR, heldur verði þeir að gerast félagar í VR eða öðrum félögum innan ASÍ. Þessi krafa er fráleit. Aðildarfélög BHMR eru ekki einskorðuð við ríkisstarfsmenn eða opinbera starfsmenn heldur er samið fyrir alla háskólamenntaða launamenn. Það mun t.d. ekki dregið í efa að Stéttarfélag verkfræðinga hafi samningsumboð gagnvart öllum vinnuveitendum verkfræðinga og hið sama gildir um Læknafélag Íslands.``
    Síðan kemur áskorun í lokin: ,,BHMR skorar á hv. þm. að láta þetta til sín taka þannig að ljóst verði af efni frv. og athugasemdum við það að háskólamenntaðir starfsmenn Lyfjaverslunar ríkisins eigi rétt á að vera áfram í fagstéttarfélögum sínum.``
    Ekkert að þessu er tekið fram að því er varðar þetta frv. Það eru svipaðar áherslur sem koma fram í álitum frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja að því er varðar þessi atriði en þetta er kannski það skýrasta sem þar kemur fram þannig að ég þarf ekki að endurtaka það sem hin stéttarfélögin segja, þ.e. BSRB fyrst og fremst og Starfsmannafélag ríkisstofnana.
    Þetta atriði tel ég mjög alvarlegt og tel raunar ekki koma til greina að málið verði afgreitt meðan þetta er í lausu lofti. Og ég skil ekki hvernig stendur á því að ekki er tekið á þessu, eins og ég minntist á áðan, í lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Af hverju er ekki flutt bara sérstakt frv. og þessi biðlaunaréttur lagður niður ef menn telja að það eigi að gera það eins og þarna virðist vera? Það er óviðunandi að vera að grauta hér í lagasetningu með þessum hætti og vera að flytja frv. um að breyta fyrirtækjum í hlutafélög og setja þannig réttindi manna í þá hættu sem raun ber vitni.
    Í sambandi við þetta frv. get ég ekki annað en minnst á þau trúarbrögð sem eru ríkjandi innan ríkisstjórnarflokkanna og tengjast einkavæðingu, eða á maður að segja einkavinavæðingu? Ég tel að það sem komið hefur í ljós varðandi SR-mjöl sé það alvarlegt að nú sé ástæða til að staldra við. Hvernig í ósköpunum getur staðið á því að fyrirtæki eins og SR-mjöl er selt, kannski einhverjum einkavinum? Ég hef ekki kynnt mér það sérstaklega en því hefur verið haldið fram, t.d. í blaðagreinum og í forustugreinum blaða einnig, að ekki hafi verið staðið rétt að málum þar og hefur m.a. verið höfðað mál í því sambandi. Það er mjög sérkennilegt að það skuli gerast stuttu eftir að slíkt fyrirtæki er selt, ríkisfyrirtæki eins og SR-mjöl, að um verulegan hagnað er að ræða hjá því fyrirtæki sem er tekinn út úr fyrirtækinu og ríkið fái ekki neitt í sinn hlut. Það er alveg með ólíkindum.
    Það sama gildir um fleiri fyrirtæki og hvað gerist nú með Lyfjaverslun ríkisins? Á að afhenda hana á sama hátt einhverjum einkavinum sem þóknast ríkisstjórninni? Kannski má líka spyrja sjálfan sig: Hverjir eru það sem hafa efni á að versla á þessum markaði? Eru það ekki einmitt þeir sem hafa mestu fjármunina og eiga flest fyrirtæki á Íslandi? Eru þeir ekki raunverulega að efla og styrkja þennan margfræga kolkrabba sem alltaf er verið að tala um?
    Ég set stórt spurningarmerki við þessa einkavæðingarstefnu og einkavæðingartrú sem hér hefur ráðið ríkjum og tel að rétt sé að staldra við og fara betur ofan í saumana á þeim málum sem ég hef nú nefnt. Ég get líka nefnt söluna á Þormóði ramma og sjálfsagt má nefna fleiri. (Gripið fram í.) Það þarf að fara ofan í öll þessi mál. Það þarf að fara ofan í þessi mál og skoða hvað þarna hefur verið á ferðinni.
    Varðandi söluna á Þormóði ramma hefur m.a. komið fram opinberlega ákveðin gagnrýni á það mál. Ég hef ekki farið ofan í það mál en ég hef lesið gagnrýni á það. ( Fjmrh.: Það er til sannleikur í málinu.) Ég sagðist hafa lesið um það en ég hef ekki farið sérstaklega ofan í málið. Það má upplýsa það hér á eftir. Ég ætlaði ekki endilega að taka það nema almennt en ég get nefnt það. En þetta er bara sem dæmi eins og SR-mjöl, sem mikið hefur verið í umræðunni og meira að segja var höfðað mál eins og hæstv. ráðherra veit.
    Spurningin er hvort við erum raunverulega að flytja fyrirtæki, kvóta, o.fl. á færri og færri hendur. Og er það stefnan? Ef það er stefnan þá verða menn bara að gjöra svo vel að að standa við hana og segja að það sé meiningin. En ég tel ekki ástæðu til að staldra við einungis vegna þessara mála, sem ég hef nefnt, heldur tel ég einnig ástæðu til að staldra við og velta fyrir sér hvort það sé alveg rétt á samdráttartímum að ríkið selji sín fyrirtæki. Mér þykir það mjög einkennileg stefna að selja fyrirtæki og e.t.v. fækka störfum á sama tíma og atvinnuleysið fer stöðugt vaxandi.
    Það er því mjög margir þættir sem vert er að skoða í þessu máli og þess vegna ákvað Kristín Ástgeirsdóttir að draga stuðning sinn við þetta mál til baka og við þingkonur Kvennalistans munum greiða atkvæði gegn frv. þegar það kemur til afgreiðslu.
    Ég get að sjálfsögðu tekið fyrir miklu fleiri þætti en ég læt þetta nægja, virðulegi forseti, að svo komnu máli. Eins og ég tók fram áðan getur hv. frsm. nál. fengið afrit af bréfi Kristínar ef hann hefur það ekki undir höndum. Ég bjóst hálfpartinn við að það yrði lesið upp hér þegar gerð var grein fyrir nál. en það var ekki gert, enda er ég hér komin til þess. Það er mér mikil ánægja að lesa bréf Kristínar en ég gerði mér ljóst um leið að hv. frsm. hafði líklega ekki þetta bréf undir höndum.